Handbolti

Hin þaul­reynda Rut gengin í raðir silfur­liðs Hauka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rut í rauðum búning Hauka.
Rut í rauðum búning Hauka. Haukar

Hin þaulreynda Rut Jónsdóttir, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í handbolta, er gengin í raðir Hauka í Olís-deildinni. Hún spilaði ekkert með KA/Þór á síðustu leiktíð vegna barneigna en hefur nú ákveðið að söðla um og mun spila í rauðu á komandi leiktíð.

Hin 33 ára gamla Rut samdi við silfurlið Olís-deildarinnar til tveggja ára en Haukar töpuðu úrslitaeinvíginu gegn Val í vor. Koma Rutar í lið Hauka gerir liðið þó til alls líklegt á næstu leiktíð. 

Rut er eins og áður sagði þaulreynd. Hún er uppalin í HK en í tilkynningu Hauka kemur fram að Rut hafi stigið sín fyrstu skref í meistaraflokki undirstjórn Díönu Guðjónsdóttur sem er í dag þjálfari Hauka ásamt Stefáni Arnarsyni. 

Frá 2008 til 2014 lék Rut með Holstero og varð EHF-bikarmeistari árið 2013. Frá 2014 til 2016 lék hún með Randers og varð danskur bikarmeistari. Frá 2017 til 2020 lék hún með Esbjerg og varð tvívegis danskur meistari. Hún samdi við KA/Þór árið 2020 og varð þrefaldur meistari með liðinu árið 2021.

Alls hefur Rut leikið 115 A-landsleik og skorað í þeim 244 mörk. Þá hún að baki þrjú stórmót með íslenska landsliðinu og hefur tvívegis verið valin handknattleikskona ársins. Þegar hún tók sér tímabundið leyfi vegna barnsburðar var hún fyrirliði Íslands. 

„Það er mjög flott uppbygging í gangi á Ásvöllum sem mig langar að taka þátt í. Þær eru með spennandi lið með ungum og efnilegum leikmönnum. Þetta eru metnaðarfullar stelpur sem hafa staðið sig mjög vel og ég sé að þær geta náð enn lengra. Umgjörðin í kringum liðið er mjög góð og ég finn að það er mikill metnaður fyrir kvennaboltanum í Haukum. Einnig eru þær með frábært þjálfarateymi sem ég hlakka til að vinna með,“ sagði Rut við undirskriftina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×