Sport

Yngst á þessari öld til að komast í undan­úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skráði sig í sögubækurnar.
Skráði sig í sögubækurnar. EPA-EFE/YOAN VALAT

Hin 17 ára gamla Mirra Andreeva er komin í undanúrslit Opna franska meistaramótsins í tennis. Hún er yngsti keppandi risamóts til að komast svo langt síðan Marina Hingis gerði það á Opna bandaríska árið 1997, þá 16 ára gömul.

Vegna ungs aldurs má Andreeva aðeins taka þátt í takmörkuðum fjölda móta á ári en hún er svo sannarlega að nýta tækifærið á hinum fornfræga velli Roland Garros sem staðsettur er í París. 

Aryna Sabalenka frá Belarús var fórnarlamb rússneska undrabarnsins í átta manna úrslitum mótsins sem fram fóru í gær. Snemma í viðureigninni var ljóst að Sabalenka væri að glíma við einhverskonar meiðsli.

„Ég átti mjög erfitt uppdráttar líkamlega. Ég hef verið veik síðustu daga með einhverskonar magavírus svo þetta hefur verið brekka,“ sagði Sabalenka að tapinu loknu.

Andreeva, sem er í 38. sæti heimslistans, sýndi hins vegar enga miskunn og lagði Sabalenka, sem situr í 2. sæti listans, örugglega í þremur settum, 6-7 (5-7), 6-4 og 6-4.

„Í hreinskilni sagt var ég mjög stressuð fyrir leikinn. Ég vissi að hún væri með forskot á mig,“ sagði Andreeva sem hafði tapað báðum leikjum sínum gegn Sabalenka á ferlinum.

„Ég og þjálfarinn minn gerðum áætlun fyrir leik dagsins en aftur þá man ég ekki neitt. Ég reyndi bara að spila eins vel og ég gat,“ sagði Andreeva að endingu. 

Síðar í dag hefjast undanúrslit Opna franska. Andreeva mætir Jasmine Paolini á meðan stórstjörnurnar IgaŚwiątek (1. sæti heimslistans) og Coco Gauff (3. sæti) mætast í hinum undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×