Skoðun

Sann­gjarnt líf­eyris­kerfi: Endur­skoðun í tæka tíð

Alma Ýr Ingólfsdóttir skrifar

Á Alþingi Íslendinga er nú til meðferðar frumvarp um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu, sem myndi fela í sér einhverjar mestu breytingar á kerfinu fyrr og síðar verði frumvarpið samþykkt. ÖBÍ réttindasamtök hafa komið á framfæri fjölda athugasemda og tillagna um breytingar a frumvarpinu.

Samkvæmt frumvarpinu eiga breytingarnar að taka gildi 1. september 2025. Lagt er til í frumvarpinu að lögin skulu endurskoðuð fyrir 1. september 2030, þ.e. fimm árum eftir gildistöku þeirra. Fram kemur í frumvarpinu að við þá endurskoðun verði horft til reynslunnar af breyttu fyrirkomulagi þjónustu og greiðslna, m.a. tölulegum upplýsingum, viðhorfum notenda og framvindu mála innan stjórnsýslunnar.

ÖBÍ hefur lagt til að í stað þess að endurskoðun laganna fari fram fimm árum eftir gildistöku fari hún fram þremur árum eftir gildistöku. Sem fyrr segir er um að ræða einhverjar umfangsmestu breytingar á örorkulífeyriskerfinu á Íslandi fyrr og síðar. Þúsundir úr hópi fatlaðs fólks á Íslandi byggja alla afkomu sína á lögum um almannatryggingar og tengdum lögum.

ÖBÍ hefur vakið athygli á því að þegar um sambærilegar lagabreytingar hefur verið að ræða á þessu sama réttarsviði hefur endurskoðun innan þriggja ára verið viðhöfð.

ÖBÍ telur að fimm ár án endurskoðunar sé allt of langur tími, ekki síst með hliðsjón af því að mælendur frumvarpsins leggja áherslu á að ljúka afgreiðslu þess á þeim örfáu dögum sem eftir eru af yfirstandandi þingi. Ef þetta flókna og yfirgripsmikla mál verður afgreitt á svo stuttum tíma er því miður hætta á að upp komi vankantar sem geta haft alvarlegar afleiðingar á réttindi og afkomu þeirra sem reiða sig á almannatryggingar.

Höfundur er formaður ÖBÍ réttindasamtaka.




Skoðun

Skoðun

1969

Tómas A. Tómasson skrifar

Sjá meira


×