Körfubolti

Porzingis klár í kvöld og spenntur fyrir úrslitaeinvígi gegn gömlu fé­lögunum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kristaps Porzingis hefur misst af nánast allri úrslitakeppninni en er klár í slaginn fyrir fyrsta leik úrslitaeinvígisins í kvöld.
Kristaps Porzingis hefur misst af nánast allri úrslitakeppninni en er klár í slaginn fyrir fyrsta leik úrslitaeinvígisins í kvöld. Maddie Meyer/Getty Images

Kristaps Porzingis var eitt sinn vonarstjarna Dallas Mavericks. Það ævintýri gekk ekki upp og nú leikur hann til úrslita gegn liðinu með nýjum félögum sínum í Boston Celtics. Hann hefur verið meiddur að undanförnu en verður klár í kvöld fyrir fyrsta leik úrslitaeinvígisins. 

Mavericks sóttu Porzingis í stórstjörnuskiptum við New York árið 2019, þegar Luka Doncic var ennþá nýliði í deildinni.

Porzingis var meiðslahrjáður og batnaði lítið við komuna til Dallas. Honum var svo loks skipt árið 2022 eftir vonbrigðatíma hjá Mavericks. Þá föru sögusagnir á kreik um að góðvilji gömlu liðsfélagana hjá Mavericks væri ekki mikill í garð Porzingis.

„Þetta var ekki alslæmt. Við áttum góðar stundir og fínar minningar en heilt yfir gekk þetta bara ekki upp, fyrir hvorugan aðila. Þetta var ekki fullkomið og það voru einhverjir orðrómar um stirt samband í búningsklefanum. Það var aldrei þannig, þetta var allt bara bull,“ sagði Porzingis í spjalli við ESPN fyrir fyrsta leik úrslitaeinvígisins.

Porzingis er ekki enn laus við meiðsli og hefur misst af síðustu tíu leikjum Celtics í úrslitakeppninni en verður klár í kvöld þegar úrslitaeinvígið fer af stað.

Sóknarlega getur hann teygt vel á gólfinu og skotið fyrir utan. Síðasti andstæðingur Mavericks, Minnesota Timberwolves, bjó ekki svo vel með Rudy Gobert. Mavericks nýttu sér þann veikleika ítrekað og skildu Gobert eftir opinn.

Varnarlega verður Porzingis líklega mikið settur á Luka Doncic.

„Hann er einn af bestu leikmönnum heims. Þetta verður erfið áskorun að stöðva hann. Ég hef fylgst með honum og spilað með honum, þekki hann vel – hann er sérstakur leikmaður,“ sagði Porzingis.

Fyrsti leikur úrslitaeinvígis NBA deildarinnar verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í nótt. Upphitun og útsending hefst þegar klukkan slær miðnætti, 00:00.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×