Fótbolti

Segja að Lyngby hafi selt Andra Lucas til Gent fyrir metverð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen á æfingu með íslenska landsliðinu á Wembley í gær.
Andri Lucas Guðjohnsen á æfingu með íslenska landsliðinu á Wembley í gær. getty/Zac Goodwin

Tipsbladet í Danmörku greinir frá því að Lyngby hafi selt íslenska landsliðsframherjann Andra Lucas Guðjohnsen til Gent fyrir metverð.

Samkvæmt frétt Tipsbladet keypti Gent Andra fyrir þrjár milljónir evra, eða rúmlega 22 milljónir danskra króna. Lyngby hefur aldrei selt leikmann fyrir jafnháa upphæð.

Andri kom til Lyngby frá Norrköping fyrir tæpu ári. Hann sló í gegn hjá liðinu og var næstmarkahæstur í dönsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili með þrettán mörk. Aðeins German Onugkha, leikmaður Vejle, skoraði meira, eða fimmtán mörk.

Hinn 22 ára Andri skrifaði, að því er fram kemur í frétt Tipsbladet, undir fjögurra ára samning við Gent sem endaði í 7. sæti belgísku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Liðið tryggði sér hins vegar Evrópusæti með sigri á Genk í umspili.

Andri er íslenska landsliðshópnum sem mætir Englandi á Wembley í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×