Breiðablik er áfram með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir 0-3 útisigur á Þór/KA. Agla María Albertsdóttir, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Andrea Rut Bjarnadóttir skoruðu mörk Blika sem eru með 21 stig á toppnum og markatöluna 21-2. Akureyringar eru í 3. sætinu með fimmtán stig.
Hin sautján ára Ísabella Sara Tryggvadóttir skoraði þrennu þegar Valur vann öruggan sigur á Stjörnunni, 4-0. Öll mörk Ísabellu komu í seinni hálfleik. Berglind Rós Ágústsdóttir var einnig á skotskónum en hún kom Valskonum í 1-0 á 24. mínútu. Valur er í 2. sæti deildarinnar með átján stig en Stjarnan í því fimmta með níu stig.
Þróttur vann sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu þegar liðið sigraði Tindastól á heimavelli, 4-2. Stólarnir komust yfir með marki Jordyns Rhodes en Þróttarar tóku þá við sér. Kristrún Rut Antonsdóttir skoraði þrjú mörk og Freyja Karín Þorvarðardóttir eitt. Birgitta Rún Finnbogadóttir skoraði annað mark Tindastóls sem er sex stig í 7. sætinu. Þróttur er enn á botninum en nú með fjögur stig.
Keflavík vann sinn annan leik í röð þegar bar sigurorð af Víkingi á útivelli, 0-1. Sigurbjörg Diljá Gunnarsdóttir skoraði eina mark leiksins á 52. mínútu. Keflvíkingar eru nú í 8. sæti deildarinnar með sex stig en Víkingar eru tveimur sætum ofar með átta stig.
Þá gerðu FH-ingar góða ferð upp í Árbæ og unnu Fylkiskonur, 0-3. Snædís María Jörundsdóttir skoraði tvö mörk fyrir FH og Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir eitt. FH-ingar eru með tíu stig í 4. sætinu en Fylkir, sem hefur tapað fjórum leikjum í röð, er í níunda og næstneðsta sæti með fimm stig.
Mörkin úr leikjum gærdagsins má sjá hér fyrir ofan.