Öryggisráðið samþykkti tillögu Ísraelsmanna að vopnahléi í þremur áföngum sem Joe Biden Bandaríkjaforseti kynnti í síðustu viku. Hún felur meðal annars í sér að Ísraelar dragi herlið sitt frá Gasa og að gíslum Hamas verði skilað í skiptum fyrir palestínska fanga í ísraelskum fangelsum.
Sami Abu Zuhri, háttsettur embættismaður Hamas utan Gasa, segir samtökin fallast á tillöguna og að þau sé tilbúin til viðræðna um frekari útfærslu á henni. Það sé upp á stjórnvöld í Washington komið að tryggja að Ísraelar fari eftir tillögunni hefur Reuters-fréttastofan eftir honum.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir yfirlýsingu Zuhri vekja vonir um framhaldið en lokaorðið hafi þó leiðtogar Hamas á Gasaströndinni sjálfri.
„Það er það sem skiptir máli og það er það sem við höfum ekki í hendi ennþá,“ sagði ráðherrann sem fundaði með ísraelskum ráðamönnum til þess að þrýsta á um vopnahlé í dag.
Aðeins eitt vopnahlé til þessa
Vopnahléstillagan hefur valdið nokkrum usla innan ísraelsku ríkisstjórnarinnar en hún fellur harðlínumönnum þar ekki í geð. Ísraelar segja að vopnahlé verði aðeins tímabundin á meðan Hamas-samtökin eru enn ósigruð. Hamas-samtökin hafa á móti sagt að þau taki engum friðarumleitunum sem tryggi ekki lok stríðsins sem hefur geisað í rúma átta mánuði.
Aðeins eitt vopnahlé hefur verið gert í átökunum. Það var í nóvember og þá voru um hundrað gíslar, sem Hamas-liðar tóku höndum í hryðjuverkaárás sinni á Ísrael 7. október, frelsaðir í skiptum fyrir um 240 palestínska fanga.
Átökin halda áfram. Palestínumenn segja að 274 manns hafi fallið í rassíu sem Ísraelsher gerði í Nuseiret-flóttamannabúðunum á Gasa þar sem fjórir gíslar voru frelsaðir á laugardag. Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna sagði í dag að aðgerir beggja aðila þar kunni að teljast sem stríðsglæpir.