Íslenski boltinn

Dæmdur í bann fyrir að fleygja „fullum vatnsbrúsa í smettið á trommara“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Einhvern veginn svona hefur Danijel líklega mundað höndina er hann kastaði brúsanum.
Einhvern veginn svona hefur Danijel líklega mundað höndina er hann kastaði brúsanum. Vísir/Hulda Margrét

Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings í Bestu deild karla, hefur verið dæmdur í tveggja leikja bann og félagið sektað fyrir „vítaverða og hættulega“, „alvarlega og óíþróttamannslega“ hegðun eftir leik gegn Breiðablik á Kópavogsvelli.

Eftirlitsmaðurinn á vellinum sá atvikið og sagði í skýrslu sinni að Danijel hafi kastað vatnsbrúsa upp í stúku að stuðningsmönnum Breiðabliks. 

Hilmar Jökull , formaður Kópacabana var fyrsta vitni að atvikinu og vakti athygli á málinu á samfélagsmiðlum. Hann sagði Danijel hafa kastað „fullum vatnsbrúsa í smettið á trommara Kópacabana“.

Vegna alvarleika málsins krafðist KSÍ svara frá Víkingi.

Þeir segja hann hafi tekið vatnsbrúsann upp og ætlað að skvetta á áhorfendur en þar sem brúsinn var tómur „henti hann honum frekar með léttri hreyfingu þar sem stuðningsfólk Breiðabliks var... fullorðnir menn, mun eldri en Danijel, og höfðu þeir kallað að honum hinum ýmsu ókvæðisorðum... Einn einstaklingur fékk tóman vatnsbrúsa í derhúfu sína og var augljóslega ekki meint af... Danijel sér eftir atvikinu“.

Úrskurð aganefndar má lesa í heild sinni hér. Knattspyrnudeild Víkings hlýtur 50.000 króna sekt. Danijel skal sæta leikbanni í tvo leiki frá Bestu deildinni. 

Danijel mun því missa af leikjum Víkings gegn Val á útivelli 18. júní og KR á heimavelli 22.júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×