Lífið

Ís­lensk lopapeysa flutt milli heims­álfa vegna mestu eftir­sjár ævinnar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Celia Robbins var himinlifandi með íslensku lundapeysuna.
Celia Robbins var himinlifandi með íslensku lundapeysuna. X/Celia Robbins

Stærsta eftirsjá hinnar bandarísku Celiu Robbins var að kaupa ekki lopapeysu með lundamyndum þegar hún var á Íslandi árið 2021. Það var að minnsta kosti það sem hún svaraði fjórtán ára gamalli dóttur hennar þegar hún spurði hana út í hvað það væri sem hún iðraðist mest í lífi sínu.

Ekki löngu seinna var Celia komin með slíka lopapeysu í hendurnar.

Það var fyrir tilstilli tísts Celiu á samfélagsmiðlinum X þar sem hún greindi frá spurningu dótturinnar í byrjun mánaðarins.

„Dóttir mín spurði: Sérðu eftir einhverju mamma? Ég áttaði mig á því að hún vildi dýpra svar, en hugur minn reikaði alltaf aftur að þessari lundapeysu sem ég sá á Íslandi,“ skrifaði hún og birti mynd af peysunni.

„Nú eru þrjú ár liðin síðan ég sá hana í búðinni þar og ég sé enn eftir því að hafa ekki keypt hana.“

Dave nokkur Wiskus, forstjóri bandarísku streymissíðunnar Nebula, brást við tísti Celiu. Hann sagði sína eftirsjá vera að hann hefði einmitt keypt samskonar peysu á Íslandi árið 2022.

„Ég sé eftir því að hafa keypt einmitt svona peysu handa eiginkonu minni fyrir tveimur árum. Hún hefur aldrei notað hana. Ég er í New York-borg. Ef þú sérð um flutningskostnað þá er hún þín.“

Tíu dögum eftir tíst Celiu var peysan komin frá New York í hendur hennar í Berlín, þar sem hún er búsett.

„Auðvitað hljómar það eins og minni háttar eftirsjá, en ég er viss um að margir geti tengt við þetta!“ skrifaði hún á X og birti mynd af sér í peysunni.

„En Dave Wiskus lét ósk mína raungerast. Peysan kom frá New York til Berlínar á mettíma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×