Holland lenti undir en vara­maðurinn Wout Weghorst kom til bjargar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Wout Weghorst var nýstiginn inn á völlinn þegar hann skoraði sigurmarkið með sinni fyrstu snertingu.
Wout Weghorst var nýstiginn inn á völlinn þegar hann skoraði sigurmarkið með sinni fyrstu snertingu. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Pólland komst marki yfir gegn Hollandi en tapaði að endingu 2-1 eftir æsispennandi fyrsta leik í B-riðli Evrópumótsins.

Leikurinn fór fram á Volksparkstadion í Hamburg. Það voru læti í aðdragandanum en leikurinn fór nokkuð rólega af stað. 

Adam Buksa skoraði fyrsta mark leiksins á 16. mínútu fyrir Pólland með skalla eftir hornspyrnu Piotr Zielenski.

Gerði vel að rífa sig lausan og frá varnarmanni, kom á hlaupinu og stýrði nærstangarbolta á fjærstöngina.

Hollendingar voru samt hættulegri aðilinn og fengu mörg fín færi.

Adam Buksa kom Pólverjum yfir með góðri kollspyrnu.Geert van Erven/Soccrates/Getty Images

Tijjani Reijnders slapp einn í gegn á 27. mínútu en ákvað að gefa í stað þess að skjóta. Varnarmaður renndi sér og komst fyrir sendinguna.

Cody Gakpo var einn hættulegasti maður Hollendinga og jafnaði leikinn fyrir þá skömmu síðar. Nathan Ake átti góðan sprett upp vinstri vænginn og losaði boltann á Gakpo sem sneri og skaut rétt fyrir utan teig. Fastur bolti sem fór af varnarmanni og breytti um stefnu á leið sinni í netið.

Skot Gakpo hafði viðkomu í varnarmann á leið sinni í netið.Dan Mullan/Getty Images

Hollendingar gátu verið svekktir að vera ekki yfir í hálfleik eftir að hafa verið mun hættulegri.

Síðasta færi fyrri hálfleiks fékk Memphis Depay eftir flotta skiptingu frá Nathan Ake. Depay tók ágætlega á móti sendingunni en þurfti að teygja sig í boltann og rann aðeins til í skotinu sem fór framhjá.

Bæði lið fengu færi til að taka forystuna í seinni hálfleik áður en sigurmarkið leit dagsins ljós undir lokin.

Pólverjinn Jakub Kiwior komst í fínan séns á 59. mínútu og átti ágætis skot meðfram jörðinni en markmaður Hollendinga sá við honum.

Hollendingar fengu tvö fín færi á 65. og 70. mínútu. Donyell Malen var þá nýkominn inn og potaði boltanum í gegn á Denzel Dumfries sem skaut bylmingsskoti framhjá markinu.

Aftur komst Dumfries í færi fimm mínútum síðar og skaut á markið í þetta sinn en Wojciech Szczęsny í marki Póllands varði vel.

Varamaðurinn Wout Weghorst skoraði svo sigurmark Hollendinga með sinni fyrstu snertingu í leiknum á 83. mínútu. eftir aðra góða stoðsendingu frá Nathan Aké. Virkilega góð afgreiðsla í fyrstu snertingu, niðri með jörðinni framhjá markmanninum.

Varamaðurinn Wout Weghorst tryggði sigur með sinni fyrstu snertingu.ANP via Getty Images

Pólverjar gáfu sig alla í að jafna leikinn aftur en varð ekki erindi sem erfiði.

Nicola Zalewski endaði þetta með örvæntingarfullu, en mjög góðu skoti á lokasekúndum. Markmaður Hollands átti erfitt með að lesa skotið en tókst að halda því frá og tryggja 2-1 sigur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira