Fótbolti

Beckham heim­sótti dauð­vona Eriks­son og færði honum sex lítra af víni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Beckham og Sven-Göran Eriksson eru nánir.
David Beckham og Sven-Göran Eriksson eru nánir. getty/Scott Barbour

David Beckham heimsótti á dögunum manninn sem gerði hann að fyrirliða enska landsliðsins, Sven-Göran Eriksson.

Svíinn er með krabbamein í brisi og á ekki langt eftir. Undanfarna mánuði hafa hans gömlu lið verið dugleg að bjóða honum í heimsókn og heiðra hann á ýmsan hátt.

Eriksson þjálfaði enska landsliðið á árunum 2001-06 en á þeim tíma var Beckham fyrirliði þess. Hann heimsótti gamla þjálfarann sinn á dögunum, Eriksson til mikillar gleði.

„Hann kom með sex lítra af víni frá árgöngum sem eru mér mikilvægir. Hann var með vín frá 1948, fæðingarárinu mínu. Það var fallega gert hjá honum. Hann er einlægur og sannur. Hann hefði getað verið stór og mikill díva en hann er allt annað en það,“ sagði Eriksson í viðtali við sænska útvarpsstöð.

„Daginn áður sendi hann kokk sem undirbjó matinn og svo kom hann hingað og var í einn dag. Við töluðum mikið um fótbolta. Það staðfestir hversu frábær hann er. Hann hefði ekki þurft að koma en ég er stoltur að hann hafi gert það.“

Auk víns frá 1948 kom Beckham meðal annars með vínflöskur frá 1982 (árið sem Eriksson stýrði Gautaborg til sigurs í Evrópudeildinni) og 2000 (árið sem Lazio varð ítalskur meistari undir stjórn Erikssons). 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×