Körfubolti

Ma­vericks knúðu fram annan leik með krafti

Siggeir Ævarsson skrifar
Luka Doncic einbeittur
Luka Doncic einbeittur vísir/Getty

Úrslitaeinvígið í NBA deildinni lifir áfram eftir að Dallas Mavericks komust loks á beinu brautina í nótt þegar liðið vann tæplega 40 stiga sigur á Boston Celtics, 122-84.

Luka Doncic og félagar voru komnir með bakið upp við vegginn fræga fyrir leikinn, staðan 3-0 í einvíginu Celtics í vil en það var ljóst frá upphafi leiks að strákarnir frá Texas ætluðu ekki að láta sópa sér út. Þeir lokuðu 1. leikhluta með þristi frá P.J. Washington sem gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi.

Heimamenn léku við hvurn sinn fingur í leiknum í nótt þó ekki síst bakvarðatvíeykið Luka Doncic og Kyrie Irving sem skoruðu 29 og 21 stig hvor, 50 samanlagt. Gestirnir frá Boston komust einfaldlega aldrei í takt við leikinn og virtust hreinlega vera kaffærðir af ákefð heimamanna.

Sú ákefð sést kannski best á frákastatölfræði leiksins, en heimamenn tóku 52 slík gegn aðeins 31, en það var svo sem nóg af varnarfráköstum að taka fyrir Mavs þar sem skotnýtning Celtics var aðeins 36 prósent.

Næsti leikur í einvíginu fer fram í Boston aðfaranótt mánudags. Þess má geta að í sögu NBA-deildarinnar hefur ekkert lið náð að vinna fjóra leiki í röð og titilinn eftir að hafa lent 3-0 undir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×