Íslenski boltinn

Upp­gjör: Stjarnan – Þór/KA 1-4 | Sandra María hættir ekki að skora

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þór/KA skoraði fjögur í dag.
Þór/KA skoraði fjögur í dag. Vísir/Hulda Margrét

Þór/KA er komið aftur á beinu brautina í Bestu deild kvenna eftir 3-0 tap fyrir toppliði Breiðabliks í síðustu umferð. Í 8. umferð fór liðið í Garðabæinn og vann ótrúlegan 4-1 sigur eftir að lenda marki undir snemma leiks.

Stjarnan komst yfir snemma leiks eftir að Hrefna Jónsdóttir var rétt kona á réttum stað. Eftir þungt tap í síðasta leik hefði maður haldið að það myndi fara um gestina frá Akureyri en svo var ekki.

Þegar hálftími var liðinn barst boltinn á Söndru Maríu Jessen sem skoraði að sjálfsögðu en hún hefur verið óstöðvandi í upphafi móts. Staðan var jöfn 1-1 í hálfleik en í þeim síðari gengu gestirnir á lagið.

Sandra María hefur raðað inn mörkum í sumar.Vísir/Hulda Margrét

Hildur Anna Birgisdóttir kom inn af bekknum hjá Þór/KA í hálfleik og það tók hana ekki langan tíma að setja mark sitt á leikinn, í orðsins fyllstu merkingu. Hún skoraði beint úr hornspyrnu aðeins tveimur mínútum eftir að síðari hálfleikur hófst.

Tveimur mínútum síðar tók Hildur Anna aftur hornspyrnu, að þessu sinni rataði boltinn inn á teig þar sem Margrét Árnadóttir náði að snúa og skófla tuðrunni í netið. Staðan orðin 1-3 og Akureyringar að njóta sín í botn.

Það var svo á 69. mínútu sem Sandra María gerði endanlega út um leikinn þegar hún kláraði hlaup sitt á fjær og potaði boltanum í netið eftir að Amalía Árnadóttir hafði átt líka þessa fínu fyrirgjöf. Var þetta 10. deildarmark Söndru Maríu á leiktíðinni. Staðan orðin 1-4 og það reyndust lokatölur í Garðabænum.

Tíu mörk takk fyrir pent.vísir/Hulda Margrét

Þór/KA er nú komið upp í 3. sæti með 18 stig líkt og Íslandsmeistarar Vals sem sitja sæti ofar með leik til góða. Stjarnan er í 5. sæti með 9 stig.

Atvik leiksins

Ætli það sé ekki ákvörðun þjálfarateymis Þórs/KA að setja Hildi Önnu inn í hálfleik. Spyrnugeta hennar gjörbreytti leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Hildur Anna og Sandra María eru stjörnur dagsins. Það væri forvitnilegt að vita hvað Sandra María var að gera í vetur en það er heldur betur að skila sér. Hildur Anna er svo enn ein af gríðarlega efnilegum knattspyrnum sem Akureyri hefur alið undanfarin misseri.

Varnarleikur Stjörnunnar í heild sinni er skúrkur dagsins. Það er ekki boðlegt að fá á sig fjögur mörk á heimavelli.

Dómarar

Stefán Ragnar Guðlaugsson og teymi hans átti ágætis dag í Garðabænum.

Stemning og umgjörð

Það hefði verið gaman að sjá fleiri í stúkunni en Stjarnan þarf að eiga það við sig að byggja stúku sem hatar hita og elskar kulda (og myrkur).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×