Skipið var smíðað árið 1932 og hefur verið skip konungsfjölskuldunnar síðan þá. Fjölskyldan er með aðsetur í skipinu á meðan hún ferðast um Norðurlöndin en skipið er eingöngu í notkun á sumrin enda orðið ansi gamalt.

Konungshjónin munu fljúga til Grænlands um mánaðamótin og verður skipið þá komið til hafnar. Áhöfnin hefur verið í sex daga á leiðinni til Íslands og á tíu daga siglingu eftir til Grænlands.
„Skipið er notað þega konungsfjölskyldan ferðast um Danmörku, þegar hún heimsækir hafnarborgir Danmerkur. En einnig fyrir heimsóknir til útlanda, ekki síst núna þegar við heimsækjum Færeyjar og Grænland sem heyra undir dönsku krúnuna,“ segir Martin Engehardt vaktmaður á Danneborg.
„Þegar maður siglir um norðurslóðir skiptir veðrið höfuðmáli um hvaða leiðir við förum og í hvaða hafnir.“

Á meðan skipsverjarnir dvelja hér safna þeir kröftum og njóta lífsins í Reykjavík.
„Við vitum ekki hvenær við höldum áfram, það fer eftir veðrinu, en við verðum hér í nokkra daga og í dag ætlum við að skoða Reykjavík og Ísland til að sjá alla þá frábæru staði sem eru hérna,“ segir Martin.
Það er ekki alltaf sól á Íslandi en í dag skín hún.
„Já, það er rétt. Við höfum ekki fengið sól í ferðinni svo það er yndislegt að koma til Íslands í svona góðu veðri.“