Íslenski boltinn

Neffati um Íslandsævintýrið: Grófur fót­bolti í ís­lensku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Fram og KR í Bestu deild karla í sumar.
Frá leik Fram og KR í Bestu deild karla í sumar. Vísir/Anton

Spila leikmenn gróft í Bestu deildinni? Sænski knattspyrnumaðurinn Moutaz Neffati hefur þá tilfinningu eftir lánsdvöl sína hjá KR.

Hinn nítján ára gamli Neffati er fljótlega á leiðinni aftur til Norrköping en hann hefur spilað fimm leiki með KR-liðinu í sumar. Neffati segist eiga eftir þrjá leiki með KR en svo komist hann aftur heim til Svíþjóðar.

Neffati spilaði fjóra leiki í deildinni og einn í bikarnum. KR hefur ekki unnið neinn þeirra en gerði tvö jafntefli og tapaði þremur.

„Þetta hefur hjálpað mér,“ sagði Neffati um dvölina hjá KR í samtali við heimasíðu Norrköping.

„Markmiðið með að lána mig var það að ég fengi að spila og ég hef fengið það. Deildin hér er góð.  Það er mikið um líkamleg átök inn á vellinum, mikil ákefð og ég fékk að reyna mig í því. Í sumum leikjum hafa menn spilað svolítið gróft og það hafa verið fullt af spjöldum. Það var góð reynsla fyrir mig,“ sagði Neffati.

„Ég kem til baka fullur af orku og mun gefa allt mitt á þeim stað sem ég á heima. Ég hef saknað Svíþjóðar og Norrköping. Þrír leikir í viðbót og svo kem ég til baka. Ég veit að það hefur verið erfiður tími hjá IFK en en við munum snúa því við,“ sagði Neffati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×