Fótbolti

Segir að Sara Björk gæti farið til Sádi-Arabíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Björk spilaði 145 A-landsleiki fyrir Ísland áður en landsliðsskórnir fóru á hilluna. Þar af var hún lengi vel fyrirliði.
Sara Björk spilaði 145 A-landsleiki fyrir Ísland áður en landsliðsskórnir fóru á hilluna. Þar af var hún lengi vel fyrirliði. Jonathan Moscrop/Getty Images

Samningur landsliðskonunnar Söru Björk Gunnarsdóttur við ítalska stórveldið Juventus rennur út í sumar. Talið er líklegt að hún gæti komið heim og samið við Val eða Breiðablik en einnig er orðrómur á kreiki að hún gæti farið til Sádi-Arabíu.

Hin 33 ára gamla Sara Björk spilaði með Breiðabliki hér á landi áður en hún gekk í raðir Rosengård í Svíþjóð. Þaðan fór hún til Wolfsburg í Þýskalandi og svo til stórveldisins Lyon í Frakklandi árið 2020.

Tveimur árum síðar gekk hún í raðir Juventus á tveggja ára samningi sem rennur út í sumar. Það er óvíst hvað tekur við en Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur RÚV á EM 2024 og stjórnandi hlaðvarpsins Dr. Football, segir að Sara Björk gæti nokkuð óvænt verið á leið til Sádi-Arabíu.

„Er búinn að heyra úr mörgum áttum að Sara Björk gæti verið að fara til Sádi,“ sagði Hjörvar í síðasta þætti Dr. Football.

Þar í landi hefur karlaldeildin verið að sanka að sér stórstjörnum í misgóðu standi undanfarin misseri og nú virðist sem það eigi að setja fjármagn í kvennadeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×