Skoðun

Hefur fólk á Ís­landi efni á barn­eignum?

María Rut Kristinsdóttir skrifar

Það hefur verið algjörlega magnað að finna þann kraft sem ungt fjölskyldufólk hefur knúið áfram eftir að Sylvía Briem Friðjónsdóttir opnaði á umræðu á Instagram í því skyni að vekja athygli á raunveruleika fjölskyldufólks á Íslandi. Ég vakti athygli á þessari ómögulegu stöðu á Alþingi á föstudaginn. Þar spurði ég hvort íslensk samfélagsgerð sé að virka fyrir barnafólk? Er ekki eitthvað skakkt og brotið í kerfinu okkar þegar að ungt fjölskyldufólk nær ekki að púsla saman veruleikanum og halda sjó eftir barneignir? Ég hvatti þingheim til að vakna og raunverulega gera eitthvað í málunum. Brýning mín til þingheims fór í dreifingu á samfélagsmiðlum og nú þegar hafa yfir 120 þúsund einstaklingar horft á hana á Instagram. Málið virðist því snerta taug hjá þúsundum einstaklinga og fjölskyldum þeirra.

Hvert sem ég fer eru í kröftugir einstaklingar í kringum mig að bugast undan álaginu sem fylgir því að reyna að brúa bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar. Hvert sem ég fer eru sömu einstaklingar að bugast vegna tvöföldunar á greiðslubyrði lána, rándýrrar matarkörfu og þeytivindu sem virðist engan enda taka. Þetta er raunveruleikinn sem blasir við fólki en hann virðist ekki vera í takti við hugmyndir stjórnvalda um raunveruleikann – hér er allt best í heimi ekki satt? Það er alvarlegt misræmi í gangi hér.

Hvert fer tími þingmanna?

Á Alþingi eyðum við alveg ótrúlega miklum tíma í að ræða dauða hluti, steinsteypu, stofnanir, framkvæmdir, stöðugildi, reglugerðir og lagaramma. Að mínu mati er löngu orðið tímabært að setja meiri fókus á fólk – stöðu þess og áskoranir. Og það á við um miklu fleiri málaflokka en þennan.

Ég dáist að langlundargeði minnar kynslóðar. Sem lætur það sífellt yfir sig ganga að vangetu ráðamanna sé velt yfir á þeirra herðar í formi okurvaxta, undirmönnunar og skilningsleysis á raunverulegum aðstæðum. Finnst fólki svo skrýtið að hér sé meðaltal barneigna komið undir tvö börn?

Kvíðavaldur í manngerðu kerfi

Það á ekki að vera kvíðavaldur í sjálfu sér að eignast börn á Íslandi. Það á að vera gefandi. Okkar litla og samheldna samfélag hlýtur að geta gert betur. Ég trúi því að það sé hægt að ná samstöðu um þetta mál þvert á flokka, þvert á hagsmuni. Því þetta er málefni sem varðar okkur öll. Hér gætum við raunverulega orðið samkeppnishæf með því að gera Ísland að besta landi á Norðurlöndunum til að ala upp börn. Látum ekki einhverjar manngerðar kerfisvillur og skort á pólitískum áhuga á að fjárfesta í framtíðinni ráða för.

Ég hvet ykkur öll til að skrifa undir undirskriftarlista og þrýsta á stjórnvöld og krefjast þess að þau setji börnin okkar í forgang. Það á ekki að vera munaður á færi fárra að eignast börn á Íslandi.

Höfundur er varaþingmaður og aðstoðarmaður formanns Viðreisnar




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×