Sport

„Vildi sýna að ég geti skorað í efstu deild“

Sverrir Mar Smárason skrifar
Viktor Jónsson skoraði í kvöld, líkt og hann gerði á þessari mynd.
Viktor Jónsson skoraði í kvöld, líkt og hann gerði á þessari mynd. Hulda Margrét

Skagamenn unnu góðan 2-1 heimasigur á erkifjéndum sínum í KR í Bestu deild karla á Akranesi í kvöld. Skagamenn höfðu ekki unnið KR í efstu deild síðan árið 2016. Viktor Jónsson, framherji ÍA var mjög sáttur í leikslok.

„Já þetta var mjög ljúft. Við töluðum um það fyrir leikinn að það væru átta ár síðan að ÍA vann KR og það væri löngu kominn tími til. Fengum frábært tækifæri í dag og vorum staðráðnir í því að sækja sigur,“ sagði Viktor Jónsson.

Skagamenn höfðu yfirhöndina mest allan leikinn og fengu nokkur góð færi til þess að skora framan af áður en síðari hálfleikur breyttist í mikla miðjubaráttu. Loks braut Viktor sjálfur ísinn á 86. mínútu og kom ÍA yfir.

„Það var misheppnuð sending, Steinar fær boltann og leggur hann fyrir mig. Ég næ góðri snertingu á hann og set hann í fjær,“ sagði Viktor sem hefur skorað 8 mörk í sumar fyrir skagamenn.

“Fyrsta markmiðinu mínu er náð, ég var með mest fimm mörk fyrir þetta tímabil. Vildi sýna að ég geti skorað í efstu deild. Það var umræðan hjá ykkur spekingunum fyrir mót. Ég var staðráðinn í því að sanna það og það hefur gengið vel.“

Eins og Viktor nefnir var það umræðan fyrir mót hvort hann raunverulega gæti skorað mörk í efstu deild. Hann á nokkur tímabil í fyrstu deild þar sem hann hefur raðað inn mörkum en markaskorun í þeirri bestu verið dræm fram að þessu. En sat umræðan í honum?

„Nei ég myndi ekki segja það. Mér fannst það eiginlega bara hvetja mig. Ég veit hvað ég get og hverjir mínir styrkleikar eru. Ég var bara staðráðinn í því að spila inn á þá og haldast heill. Ég vissi að þetta myndi detta, þetta hvetur mig ennþá til þess að leggja meira á mig,“sagði Viktor.

Skagamenn sitja í 4. sæti deildarinnar með 16 stig, jafnir Stjörnunni. Ætla þeir að berjast um sæti sem gæti mögulega gefið þáttökurétt í Evrópukeppni?

„Já klárlega fyrst við erum þar núna. Fyrsta markmið var að halda okkur í deildinni en nú erum við í 4. sæti og það hefur gengið vel. Okkur líður vel saman inni á vellinum. Við viljum vera í efri helmingnum og berjast um Evrópu,“ sagði Viktor aðlokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×