Sport

Féll á lyfja­prófi en sleppur við refsingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erriyon Knighton vann silfurverðlaun á síðasta heimsmeistaramóti í frjálsum íþróttum sem fór fram í Búdapest í fyrra.
Erriyon Knighton vann silfurverðlaun á síðasta heimsmeistaramóti í frjálsum íþróttum sem fór fram í Búdapest í fyrra. Getty/Christian Petersen

Bandaríski spretthlauparinn Erriyon Knighton á enn möguleika á því að keppa á Ólympíuleikunum í París í sumar þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi í vor.

Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna sagði frá því í gær að Knighton hafi fallið á lyfjaprófi í mars síðastliðnum en jafnframt að hann muni ekki fá neina refsingu.

Hann var settur í tímabundið bann 12. apríl síðastliðinn á meðan málið var rannsakað.

Sterinn trenbolone fannst í sýni Knighton. Hann fékk þriggja daga réttarhald í júní og tókst þar að sannfæra Lyfjaeftirlitið um sakleysi sitt.

Það var niðurstaða USADA, bandaríska lyfjaeftirlitsins, að efnið hafi komið í blóð Knighton vegna mengaðs kjöts og hann hafi því ekki brotið neinar lyfjareglur.

Hinn tvítugi Knighton varð fjórði í 200 metra hlaupi á síðustu Ólympíuleikum, vann brons í sömu grein á HM 2022 og svo silfur á HM í fyrra.

Besti árangur hans í 200 metra hlaupi er 19,49 sekúndur sem er frábær tími.

Knighton fær nú tækifæri til að vinna sér sæti í Ólympíuliði Bandaríkjanna en úrtökumót Bandaríkjamanna er seinna í þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×