Erlent

Stjórn­völd á Kýpur í­treka hlut­leysi eftir hótanir Hezbollah

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forseti Kýpur var fljótur að ítreka að landið væri hlutlaust og ekki partur af vandanum, heldur lausninni.
Forseti Kýpur var fljótur að ítreka að landið væri hlutlaust og ekki partur af vandanum, heldur lausninni. epa/Lukasz Gagulski

Stjórnvöld á Kýpur hafa neyðst til að ítreka að þau eigi ekki þátt né muni þau eiga þátt í neinum stríðum eða átökum eftir hótanir af hálfu Hezbollah samtakanna í Líbanon.

Hezbollah vöruðu við því í vikunni að Kýpur gæti orðið skotmark ef stjórnvöld heimiluðu Ísraelum að nota landsvæði sitt í aðgerðum gegn samtökunum. Eftir auknar skærur síðustu daga og vikur eru áhyggjur uppi um að allsherjarátök brjótist út á milli Ísrael og Hezbollah.

„Kýpur á ekki þátt í og mun ekki eiga þátt í neinum stríðum eða átökum,“ sagði Konstantinos Letymbiotis, talsmaður stjórnvalda, í samtali við ríkismiðilinn CyBC. „Þar af leiðandi eru yfirlýsingar leiðtoga Hezbollah ekki í takt við raunveruleikann.“

Letymbiotis sagði stjórnvöld á Kýpur eiga í mjög góðu sambandi við stjórnvöld í Líbanon og að þau myndu ekki heimila neinu ríki að nota landsvæði sitt fyrir hernaðaraðgerðir gegn öðru ríki.

Hezbollah leiðtoginn Sayyed Hassan Nasrallah hótaði á miðvikudag stríði „án regla eða takmarkanna“ ef Ísraelsmenn réðust af fullum þunga gegn Hezbollah, eins og þeir hafa hótað. Þá kom hann á óvart með því að hafa einnig í hótunum við Kýpur og sagði að ef þarlend stjórnvöld heimiluðu Ísrael að nota innviði í aðgerðum sínum yrðu Kýpurbúar einnig þátttakendur í átökunum.

Ef til stríðs kæmi yrðu engir staðir öruggir fyrir eldflaugum og drónum Hezbollah.

Hótanirnar eru sagðar hafa vakið nokkurn ugg meðal embættismanna og sendifulltrúa annarra ríkja á Kýpur. Guardian hefur eftir ónefndum erindreka Evrópusambandsins að Hezbollah séu þekkt fyrir að standa við hótanir sínar og að Kýpur hafi ekki hernaðarlega getu til að svara fyrir sig.

Nikos Christodoulides, forseti Kýpur, var fljótur að svara hótunum Nasrallah og lagði bæði áherslu á hlutleysi Kýpur og þátt ríkisins í að koma neyðargögnum til Gasa. „Kýpur er ekki partur af vandamálinu, heldur partur af lausninni,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×