Innlent

Húnabyggð og Skagabyggð sam­einast

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þann fyrsta ágúst nætkomandi rennur Skagabyggð saman við Húnabyggð.
Þann fyrsta ágúst nætkomandi rennur Skagabyggð saman við Húnabyggð. Vísir/Vilhelm

Íbúar Húnabyggðar og Skagabyggðar samþykktu í dag að sameinast í eitt sveitarfélag í íbúakosningu sem lauk í kvöld. Niðurstöður kosninganna voru birtar á heimasíðum sveitarfélaganna fyrir stuttu. Sameiningin fer formlega fram fyrsta ágúst.

Í Skagabyggð var kjörsókn 92,5 prósent. Alls greiddu 62 atkvæði en 67 voru á kjörskrá. Af þeim greiddu 47 atkvæði með sameiningu og 15 gegn. Auðir og ógildir seðlar voru engir.

Í Húnabyggð var kjörsókn 37,1 prósent. Alls greiddu 355 atkvæði en 955 voru á kjörskrá. 317 greiddu atkvæði með sameiningu en 36 gegn. Auðir og ógildir seðlar voru tveir.

„Þetta er virkilega ánægjuleg niðurstaða. Þetta er það sem búið er að vera að vinna að og það er gott að fá skýrar og góðar niðurstöður í það,“ segir Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar í samtali við fréttastofu.

Hann segir að við sameininguna breytist í raun lítið hvað stjórnsýslu varðar en að hún sé framfaraskref og styrki samfélagið. Vilyrði hafi verið tengd sameiningunni um samgöngubætur og verður gengið í að setja bundið slitlag á tæplega sjö kílómetra af vegum út á Skaga ásamt mögulegum fjármunum til innviðauppbyggingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×