Skoðun

Tíu góð ráð fyrir ferða­lagið

Ágúst Mogensen skrifar

Nú þegar landinn þráir ekkert meira en upplifa sólríkar sumarnætur í guðs grænni náttúrunni og uppfærir vedur.is á 5 mínútna fresti er samt útlit fyrir pollagallaveður á mörgum stöðum. Þó þetta sé mikilvægur undirbúningur, þá er mikilvægast af öllu að renna yfir öryggisatriðin svo öll komi heil heim.

Áður en við fyllum þjóðvegina í sumar með ýmiss konar ferðavagna í eftirdragi eins og hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna er mikilvægt að muna að við það að bæta vagni aftan við bílinn breytast aksturseiginleikar bílsins, hann getur orðið óstöðugri og rásað á veginum. Þá er um að gera að flýta sér hægt.

En fleira þarf að hafa í huga áður en lagt er af stað í ferðalag og til að hjálpa ferðaþyrstum ferðalöngum eru hér nokkur góð ráð.

Loka og læsa þegar heimilið er yfirgefið

Það er góð regla er að fá nágranna eða ættingja til að taka póstinn og jafnvel slá grasið ef farið er í langan tíma í sumarfrí. Geymdu aukabíl í bílastæðinu þínu, segðu nágrönnum að þú sért að fara í frí og biddu þá að fylgjast með ferðum ókunnugra við eign þína. Að sjálfsögðu á að læsa öllum hurðum og gluggum og varna auðveldri inngöngu. Svalahurðir og hurðir sem snúa út í garð á jarðhæð eru líka inngönguleiðir og þeim þarf að læsa vandlega. Öryggiskerfi er góður kostur og þar eru margar lausnir í boði. Þínar ráðstafanir fara eftir hvar og hvernig þú býrð en hugmyndin er að ekki sé hægt að lesa úr aðstæðum á einfaldan hátt, að heimilið sé yfirgefið.

Hafðu bílrúðumiðann með

Á sumrin eru vegaframkvæmdir í hámæli og mikið um lausamöl á vegum. Ef þú færð sprungu í framrúðuna er gott að vera með bílrúðumiða við höndina til að auka líkurnar á að hægt sé að gera við rúðuna. Þú færð bílrúðumiða á skrifstofum tryggingarfélaga og mörgum verkstæðum. Með því að líma hann yfir skemmd helst sárið hreint þar til þú pantar tíma á verkstæði. Að láta gera við framrúðu er ókeypis, umhverfisvænt og tekur styttri tíma en ef henni er skipt út.

Lúsmý og sólbruni

Lúsmý hefur náð fótfestu á Íslandi en um er að ræða smáar mýflugur, illsjáanlegar en afar skæðar og hvimleitar vegna kláða og sviða sem bit þeirra veldur. Flugurnar halda sig einkum í skjóli og skugga og bíta fólk á næturnar þegar það sefur. Til eru ýmiskonar skordýrafælur í apótekum sem gott er að kaupa og spreyja á sig en einnig er gott ráð að sofa með viftu í gangi og hafa þannig hreyfingu á loftinu. Að brenna í sól getur verið viðlíka pirrandi og að fá skordýrabit. Sólarvörn er nauðsynleg á alla en svo má skreyta sig með derhúfu, smart sólarhattur eða kúrekahattur fyrir þá allra svölustu, en hvaða höfuðfat sem er, er góð vörn þegar sólin lætur loksins sjá sig á Íslandi.

Sjúkrakassar og eyrnatappar

Þá er nauðsynlegt að vera með góðan sjúkrakassa í ferðalaginu með plástrum og kælispreyi. Hælsæri er leiðinlegur ferðafélagi en stærri vandamál geta líka steðjað að. Blæðingar, hrufl og yfirborðssár er hægt að hreinsa upp, plástra eða binda um með þeim grunnbúnaði sem er í kössunum. Sjúkrakassar í ferðalagið fást víða, m.a. í apótekum og hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Ekki gleyma að hafa eyrnatappa með í ferðina því hrotur og hávaði geta haldið fyrir manni vöku. Á á tjaldsvæðum leynast misgóðir söngfuglar sem stundum taka sig til og öskursyngja Stál og hníf og viðlíka slagara langt fram undir morgun. Stuð hjá þeim en martröð fyrir hina sem eru að reyna sofa.

Slökkvitæki og gasskynjarar

Í flestum útilegum er eldað á gasi. Ef þið eldið inni í vagni eða bíl þá er mikilvægt að hafa gasskynjara festan við gólfhæð, t.d. á lista undir neðri skáp. Própangas er þyngri lofttegund en súrefni og mun því safnast upp með gólfinu fyrst ef verður gasleki. Góð loftræsting er lykilatriði þegar eldað er á gasi og munið láta hylkin standa upprétt og skrúfa fyrir þegar þið eruð búin. Slökkvitæki og eldvarnarteppi í ferðavagni eru líka skyldueign og reykskynjari sem virkar.

Vindhviður eru varasamar

Stöðugur vindur eða hviður sem ná 15-20 m/sek eru varasamar. Styrkur vindhviða er mismunandi eftir landslagi og hvort hviðan feykir eftirvagni eða ekki getur farið eftir þyngd vagnsins, ákomuhorni vindhviðunnar og viðnámi vegar. Fyrir húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og aðra tengivagna ber að fara sérstaklega varlega ef að stöðugur vindur er 15-19 m/sek. en 15-25 m/sek. í vindhviðum.

Dekkin á bílnum

Dekk verða að vera í lagi. Munsturdýpt má ekki vera minni en 1,6 mm. Ef framundan er langt ferðalag er ekki óeðlilegt að miða við 2-3 mm munsturdýpt til að mæta dekkjasliti á ferðalaginu. Álag og slit á hjólbörðum eykst í hlutfalli við þyngd farþega og farangurs. Okkur hættir til að hugsa að mynsturdýpt sé mikilvægust á veturna en hún er það allt árið. Viðnám á blautum vegi er miklu minna en á þurrum vegi og þá viljum við ekki vera á sléttum dekkjum.

Við þekkjum flest að í umferðinni leynast ýmsar hættur. Til að auka öryggi í umferðinni þurfum við að stilla hraða í hóf, spenna bílbeltin og vera í góðu ökuhæfu ástandi. Notum handfrjálsan búnað ef nota þarf símann og förum varlega.

Gleðilegt ferðasumar!

Höfundur er sérfræðingur í forvörnum hjá Verði tryggingum.




Skoðun

Skoðun

1969

Tómas A. Tómasson skrifar

Sjá meira


×