Erlent

Ass­an­ge farinn frá Bret­landi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Assange á leið í dómssal í Bretlandi árið 2019. Hann hefur setið í fangelsi þar í landi í fimm ár, en mun brátt geta um frjálst höfuð strokið.
Assange á leið í dómssal í Bretlandi árið 2019. Hann hefur setið í fangelsi þar í landi í fimm ár, en mun brátt geta um frjálst höfuð strokið. Jack Taylor/Getty

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, er farinn frá Bretlandi. Hann hefur náð samkomulagi við yfirvöld í Bandaríkjunum um að gangast undir dómsátt þar sem hann mun játa sök í njósnamáli á hendur honum, en ekki sitja í fangelsi.

Wikileaks greindi frá því í nótt að Assange væri farinn frá Bretlandi, þar sem hann hefur verið í haldi í Belsmarsh-fangelsinu í London í rúm fimm ár. Hann hélt til Norður-Maríanaeyja, samveldis undir stjórn Bandaríkjanna, til að gangast undir dómsáttinna á miðvikudag. 

Samkvæmt málsgögnum mun Assange játa sök í einum ákærulið á hendur sér, en honum er gefið að sök að hafa gerst brotlegur við njósnalöggjöf Bandaríkjanna, með því að hafa aflað sér og dreift leynilegum upplýsingum um stríð Bandaríkjanna í Írak og Afganistan. Bandarísk stjórnvöld vilja meina að háttsemin hafi komið fólki í lífshættu.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að sá tími sem Assange varði í fangelsi í Bretlandi verði dreginn frá þeirri refsingu sem hann hefði verið látinn sæta vegna brotsins, og því muni hann ekki þurfa að sitja inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×