Skoðun

Húsnæðisátak Reykja­víkur á fullu skriði

Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar

Húsnæðisátak Reykjavíkur sem við hófum snemma í vor gengur vel. Stöðuna kynntum við borgarstjóri á blaðamannafundi fyrr í dag í félagsmiðstöðinni Borgum í Grafarvogi eftir kynningu í umhverfis- og skipulagsráði í morgun.

500 nýjar íbúðir á litlum lóðum í Grafarvogi eru í undirbúningi og við hyggjumst rýna álíka tækifæri í öðrum hverfum í kjölfarið. Lagt var af stað með hugmyndir um 1000 íbúðir í Grafarvogi en búið er að falla frá þeim umdeildu og eftir standa þessar 500 sem talið er að muni þjóna hverfinu vel og mæta um leið brýnni húsnæðisþörf.

Aðferðarfræðin sem við beitum snýst um að nýta innviði sem allra best og mæta húsnæðisskorti á sjálfbæran hátt á forsendum hverfanna og á forsendum jákvæðrar borgarþróunar.

Við ætlum að fjölga íbúðum á litlum og krúttlegum reitum innan hverfa sem styður við þá þjónustukjarna sem fyrir eru og verslun og þjónustu sem hefur sumsstaðar átt erfitt uppdráttar. Það styrkir blómlega nærþjónustu sem einfaldar íbúum lífið.

Þetta gerir minni verktökum kleift að fara af stað með lítil uppbyggingarverkefni sem er til þess fallið að stuðla að því að rjúfa kyrrstöðuna og frostið á húsnæðismarkaði.

Lögð er rík áhersla á að öll hönnun nýju uppbyggingarinnar verði í takt við ásýnd hverfanna eins og auðmjúkir og kurteisir gestir sem setjast í lausu sætin við kvöldverðarborðið.

Á sama tíma hyggjumst við nýta ferðina vel og skapa auk uppbyggingarinnar aukin lífsgæði í hverfunum, taka vel utan um og faðma að okkur almannarýmin og grænu svæðin og bæta þau í leiðinni.

Þetta er góð borgarþróun upp á sitt besta og þetta er svar við þeirri brýnu húsnæðiskrísu sem við stöndum frammi fyrir. Fyrir borgarbúa, á forsendum borgarbúa.

Höfundur er formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur og borgarfulltrúi Pírata




Skoðun

Sjá meira


×