Fótbolti

Undra­barnið hefur sinnt heima­vinnu á EM: Stóðst öll próf í skólanum

Aron Guðmundsson skrifar
Lamine Yamal fagnar marki sínu gegn Georgíu í riðlakeppni EM  en hann er yngsti leikmaðurinn til að spila og skora fyrir spænska karlalandsliðið.
Lamine Yamal fagnar marki sínu gegn Georgíu í riðlakeppni EM  en hann er yngsti leikmaðurinn til að spila og skora fyrir spænska karlalandsliðið. Vísir/Getty

Hinn sextán ára gamli Lamine Yamal, landsliðsmaður Spánar og leikmaður spænska stórliðsins Barcelona, stóðst öll prófin sem hann þreytti í skólanum sínum á meðan á Evrópumótinu í fótbolta stendur. 

Spænska undrabarnið hefur skiljanlega vakið gríðarlega athygli undanfarið ár eftir gott tímabil með Barcelona sem og góða frammistöðu á Evrópumótinu með landsliði Spánar til þessa. 

The Athletic greinir frá því að Yamal hafi nú fengið veður af því, þar sem að hann er nú staddur á Evrópumótinu í Þýskalandi, að hann hafi staðist öll prófin sem hann þreytti í framhaldsskóla sínum. 

Yamal hefur þurft að sinna náminu á meðan á Evrópumótinu stendur og hann greindi, himinlifandi, frá tíðindunum í viðtali við spænska miðilinn Onda Cero. 

„Ég náði öllum prófum og er kominn með ESO gráðuna núna,“ sagði Yamal sem greindi nú ekki nákvæmlega frá því hvaða einkunnir hann hefði fengið. „Ég sá bara að ég hafði staðist öll próf og hrindi rakleiðis í mömmu til þess að segja henni frá því.“

Yamal hefur haft einkennara til þess að aðstoða sig á EM í Þýskalandi. 

„Ég fer í tíma á hverjum degi og sinni mismunandi heimavinnu. Það er misjafnt hversu mikilli heimavinnu ég þarf að sinna á degi hverjum. Ég sinni þessu þó samviskusamlega á hverjum degi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×