Handbolti

Skotið sem geigaði og breytti öllu fyrir Ís­land

Aron Guðmundsson skrifar
Palicka í leik á Evrópumótinu með landsliði Svía
Palicka í leik á Evrópumótinu með landsliði Svía Vísir/EPA

Jafntefli Svía gegn Ungverjum í kvöld í milliriðlum EM í handbolta sér til þess að íslenskur sigur á morgun gegn Slóveníu tryggir Strákunum okkar sæti í undanúrslitum mótsins. Litlu sem engu munaði að staðan hefði verið allt önnur. 

Það var á lokasekúndum leiksins, í stöðunni 32-32, sem boltinn endaði hjá Andreas Palicka, reynsluboltanum í marki Svía sem varði skot Ungverja, lét svo skot vaða yfir allan völlinn og freistaði þess að tryggja Svíum mikilvægan sigur. 

Sigurinn hefði komið Svíum í bílstjórasætið í riðlinum og farið langt með að tryggja þá áfram í undanúrslit mótsins.

Skot Palicka fór hins vegar rétt fram hjá markinu og leiktíminn rann út. Fyrir lokaumferð riðilsins eru Svíar ekki með örlögin í sínum eigin höndum. Heldur þurfa þeir að vinna Sviss og treysta á að önnur úrslit falli sér í vil, að Ísland eða Króatía tapi stigum.

Palicka varði oft á tíðum frábærlega í leiknum gegn Ungverjum í kvöld og hefur svo sannarlega staðið sína plikt með prýði með Svíum í gegnum tíðina en í viðtali eftir leik var hann bugaður.

„Ég varð að láta vaða í átt að marki. Ég vissi ekki hvort að það væru fimm sekúndur eða ein sekúnda eftir af leiktímanum,“ sagði Palicka í samtali við TV 2 eftir leik. Aðspurður hvort framundan væri andvökunótt hafði Palicka þetta að segja:

„Já ég held það klárlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×