Í könnun sem Prósent framkvæmdi á dögunum voru Íslendingar spurðir að því hversu líklegt eða ólíklegt væri að þeir færu í parísarhjólið sem stendur við Reykjavíkurhöfn.
Fimmtán prósent svarenda sögðu það líklegt eða hafa nú þegar farið í parísarhjólið. Tólf prósent sögðu það hvorki líklegt né ólíklegt og sjötíu og þrjú prósent sögðu ólíklegt að þau fari í parísarhjólið í sumar.
Morgunblaðið slær því upp að parísarhjólið sé óvinsælt meðal landsmanna. Þessu er Einar Þorsteinsson borgarstjóri ekki sammála. Hann hefur farið snúning í hjólinu, þann fyrsta, og naut sín vel, eins og sjá má í myndskeiðinu hér að neðan:
„Ég held að enginn hafi séð það fyrir sér að öll íslenska þjóðin myndi fara í þetta parísarhjól.
Þessi könnun sýnir að fimmtán prósent landsmanna sjá fyrir sér eða telji líklegt að þeir fari í parísarhjólið. Það er hátt í sextíu þúsund manns. Í Reykjavík er áhuginn þannig að 33 þúsund manns telja líklegt að þeir fari í parísarhjólið. Ég held að það sé nú í góðu samræmi við væntingar. Það er verið að reyna að auka afþreyingu í borginni og þetta er ein leið til þess.“
Engin áhætta fyrir borgina
Einar segir að borgin beri enga fjárhagslega áhættu af rekstri parísarhjólsins, hún leigi einfaldlega litla lóð undir hjólið og rekstraraðili sjái um rest.
„Nú er þetta könnun, nú þurfum við bara að sjá hvernig sumarið verður. Þetta verður út september og svo metum við stöðuna, hvort áhuginn verði enn til staðar.“
Hann hafi ekki rætt við rekstraraðila parísarhjólsins síðan það var fór að snúast þann 17. júní. Hann viti því ekki hvort hann uni hag sínum vel við rekstur parísarhjólsins.
Eðlilegar skýringar á minni áhuga landsbyggðarfólks
Þá sýnir könnunin fram á það að aðeins átta prósent íbúa landsbyggðarinnar sjái fyrir sér að fara í parísarhjólið. Það segir Einar eiga sér eðlilegar skýringar.
„Ég veit ekki alveg hvaða væntingar fólk hafi átt að hafa til þess að fólk færi að gera sér ferð til Reykjavíkur, til þess eins að fara í parísarhjól. Hugsanlega eru landfræðilegar ástæður sem skýra þennan mismunandi áhuga milli fólks á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. En mér þykir þetta nú bara nokkuð gott hlutfall, ef átta prósent fólks á landsbyggðinni telur líklegt að það fari í parísarhjólið og býð það velkomið til Reykjavíkur.“