Handbolti

Stelpurnar tryggðu sér sjöunda sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tinna Sigurrós Traustadóttir og stöllur hennar í U-20 ára landsliði Íslands í handbolta lentu í 7. sæti á HM.
Tinna Sigurrós Traustadóttir og stöllur hennar í U-20 ára landsliði Íslands í handbolta lentu í 7. sæti á HM. ihf/Sasa Pahic Szabo

Stelpurnar í íslenska U-20 ára landsliðinu í handbolta tryggðu sér 7. sætið á HM í Norður-Makedóníu með sigri á Sviss í morgun, 29-26.

Ísland hafði tapað þremur leikjum í röð áður en að leiknum í morgun kom. Íslenska liðið lét það ekki á sig fá og lagði það svissneska að velli.

Haukakonurnar Inga Dís Jóhannsdóttir og Elín Klara Þorkelsdóttir fóru fyrir íslenska liðinu í markaskorun í dag. Inga Dís skoraði sjö mörk og Elín Klara fimm, öll í fyrri hálfleik. Elísa Elíasdóttir skoraði fjögur mörk af línunni.

Ísland leiddi stærstan hluta leiksins og var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12.

Svisslendingar gáfust ekki upp, jöfnuðu í 20-20 og komust svo yfir, 20-21. Þá sögðu Íslendingar hingað og ekki lengra, komust aftur yfir og lönduðu sigrinum, 29-26.

Mörk Íslands: Inga Dís Jóhannsdóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Elísa Elíasdóttir 4, Rakel Oddný Gudmundsdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Lilja Ágústsdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1, Tinna Sigurrós Traustadóttir 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×