Greint var frá því í gær að óvíst væri með þátttöku Murray. Hann hefur nú staðfest það að hann muni ekki spila einliðaleikinn gegn Tékkanum Tomas Machac sem átti að fara fram síðar í dag, hann stefnir ekki á að snúa aftur að ári og hefur því leikið sinn síðasta einliðaleik á Wimbledon.
Murray heldur valmöguleikanum ennþá opnum að taka þátt í tvíliðaleiknum og mun bíða með ákvörðun fram á síðustu stundu. Þar á hann að spila á morgun með bróður sínum Jamie Murray gegn Áströlunum John Peers og Rinky Hijikata.
Að svo stöddu þykir þó ólíklegt að það náist.
Svekkjandi niðurstaða fyrir Murray sem hefur einbeitt sér af öllum krafti við að komast í form fyrir Wimbledon en hann er orðinn 37 ára gamall og hefur glímt við mikil meiðsli að undanförnu.
Hann reif liðbönd í ökkla síðastliðinn febrúar, jafnaði sig af því en fékk svo taugatak í bakið á opna franska meistaramótinu í maí, þurfti að gangast undir aðgerð og hefur ekki enn jafnað sig að fullu.