Skoðun

Blindskerin í út­sendingu RÚV - Að­gengi sjó­manna og blindra að efni Ríkis­sjón­varpsins

Sigþór U. Hallfreðsson skrifar

Aðgengi að sjónvarpsefni er ekki bara spurning um þægindi, heldur grundvallaratriði í réttindum allra landsmanna. Blindir, sjónskertir og sjómenn eiga allir rétt á að geta nýtt sér þjónustu Ríkisútvarpsins (RÚV), sem við öll borgum skatta til að styðja. Á meðan flestir njóta góðs af útsendingum og vefþjónustu RÚV, hafa ákveðnir hópar, eins og sjómenn, blindir, sjónskertir og heyrnadaufir takmarkaðan aðgang.

Aðgengi fyrir alla landsmenn – jafnvel sjónskerta sjómenn

Nýlega bárust fréttir af því að útsendingum RÚV í gegnum gervihnattasamband hefði verið hætt. Fyrir sjómenn, sem oft eru langt frá landi og treysta á gervihnattasamband, þýddu þessar fréttir að þeir hefðu ekki lengur aðgang að útsendingum á miðunum nema í gegnum sérhæfðan búnað. Mörgum brá við að heyra af þeirri stöðu sem upp var komin enda greiða sjómenn nefskatt sem rennur til RÚV eins og aðrir landsmenn. Formaður Sjómannasambands Íslands benti á málið og sagði að þær 20 milljónir sem þyrfti til að halda úti útsendingum til 3500 sjómanna væru smáaurar í þessu samhengi. Við þessum ábendingum var brugðist hratt við og skömmu síðar tilkynnti Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra, að þessum áformum yrði frestað.

Skortur á upplýsingum og sjónlýsingum

Við hjá Blindrafélaginu gleðjumst yfir því að tekið hafi verið tillit til stöðu sjómanna. Í þessu samhengi langar okkur þó að benda á að Blindrafélagið hefur sent fjölda fyrirspurna og bréfa til RÚV vegna síðunnar og appsins á þeirra vegum og lengi beðið eftir sjónlýsingum á innlendu efni, og hefur átt marga jákvæða fundi með útvarpsstjóra og öðrum stjórnendum RÚV en lítið verður þó úr verki þrátt fyrir að fjöldi nýrra lausna hafi orðið til á undanförnum árum.

Aðgengi að fréttum

Aðgengi að fréttum er grundvallaratriði fyrir alla. Þó að RÚV hafi vefsíðu þar sem hægt er að nálgast fréttir, hefur Blindrafélagið bent á að aðgangurinn virkar ekki vel fyrir vefvarp. Aðrar fréttaveitur eins og DV, Vísir og mbl.is eru með aðgengilegar fréttir fyrir vefvarp, sem sýnir að það er mögulegt að bæta úr þessu. Reyndar er vefur mbl.is frábært dæmi um hvað hægt er að bæta aðgengi fjölda fólks með einföldum lausnum og óverulegum tilkostnaði og bendum við á lausnina auðlesinn mbl.is í því samhengi.

Á sama tíma hefur Blindrafélagið bent á að vefur RÚV og öpp þeirra séu ekki nægilega aðgengileg fyrir skjálesara, sem gerir það erfitt fyrir blinda og sjónskerta að nota þau.

Blindir vilja fylgjast með íslenskri afþreyingu og menningu

Blindrafélagið hefur ítrekað bent á skort á sjónlýsingum (audio description) fyrir sjónvarpsefni. Sjónlýsingar eru nauðsynlegar fyrir blinda og sjónskerta til að geta fylgst með sjónvarpsefni á fullnægjandi hátt. Skortur á sjónlýsingum og aðgengilegum upplýsingum gerir það að verkum að þessi hópur getur ekki notið sjónvarpsefnis á sama hátt og aðrir. Í október var haldin sérstök Sjónlýsingarvika þar sem Stefán, útvarpsstjóri, var knúinn til að svara um hvenær væri von á sjónlýsingum. Okkur hafa enn ekki borist svör en viljum vera bjartsýn á að geta fengið að fylgjast með næstu þáttaröð Aftureldingar og annars íslensks gæðaefnis RÚV og fá að taka virkan þátt í samfélagslegri umræðu um menningar- og dægurmál.

RÚV er allra landsmanna

RÚV er opinber stofnun sem á að þjóna öllum landsmönnum. Við borgum öll sömu skatta til að halda úti RÚV en sumir hópar hafa ekki jafnan aðgang að þjónustunni. Þetta er óréttlæti sem þarf að leiðrétta. Það er mikilvægt að RÚV viðurkenni og bæti úr þessum aðgengisvandamálum, ekki bara til að uppfylla lagalegar skyldur sínar, heldur einnig til að tryggja að allir landsmenn geti nýtt sér þjónustuna.

Það sem vel er gert og þarf að vinna áfram

Oft þarf ekki mikið til að stórbæta aðgengi. Nýleg tækni sem að miklu leyti byggir á gervigreind hefur þannig stóraukið notkun fjölda hópa sem annars gætu ekki nýtt sér sjónvarpsútsendingar. Í forsetakappræðunum var boðið upp á fyrirmyndarlausn, það er rauntímatextun og gátu notendur stækkað textann eftir þörfum. Þessa lausn þarf að þróa áfram og gera aðgengilega í öllu íslensku efni, hvort sem það er í beinni eða endursýningu.

Einnig má nefna að RÚV veitir í dag notendum vefvarpsins aðgang að rauntímalestri á texta á erlendu sjónvarpsefni. Þetta er þjónusta sem mjög margir blindir og sjónskertir nýta sér til að geta fylgst með sjónvarpinu og fá textann á erlendu efni lesinn fyrir sig á íslensku, og geta þannig haldið áfram að njóta efnisins eftir að sjónin varð orðin svo slæm að þau hættu að geta lesið textann. Margir höfðu gefist upp og hætt að horfa á sjónvarp, en RÚV hefur staðið sig vel með þessa þjónustu og mikilvægt að henni verði viðhaldið.

Aðgengisfulltrúi RÚV

Hjá RÚV starfar aðili sem hefur titilinn aðgengisfulltrúi en sá einstaklingur hefur aldrei haft samband við Blindrafélagið að fyrra bragði. Það er mikilvægt að þessi aðili taki virkan þátt í að bæta aðgengi og hafi reglulegt samráð við þau samtök sem vinna að réttindum blindra og sjónskertra og vill Blindrafélagið gjarnan fá að koma að ábendingum og aðstoða við úrbætur eins og hægt er.

Beinar spurningar til RÚV að hætti sjómanna

Við hjá Blindrafélaginu viljum því spyrja að hætti sjómanna: Hvenær verður aðgengi fyrir blinda og sjónskerta bætt? Hvenær fáum við sjónlýsingar? Hvenær verður nýr spilari kynntur til sögunnar? Blindrafélagið er alltaf tilbúið að setjast niður og ræða málin en það þarf að vera raunverulegur vilji til að bæta úr málunum.

Niðurstaða

Það er brýnt að RÚV taki aðgengismál alvarlega og geri raunverulegar úrbætur til að tryggja að sjómenn, blindir og sjónskertir hafi jafnan aðgang að dagskrárefni. Með því að bæta aðgengi og innleiða lausnir eins og sjónlýsingar, rauntímatextun og aðgengilegri vefþjónustu, getur RÚV sýnt fram á að stofnunin standi með öllum landsmönnum. Þetta er ekki aðeins lagaleg skylda, heldur einnig spurning um réttlæti og samfélagslega ábyrgð.

Við skorum á RÚV og stjórnvöld að tryggja að allir hafi jafnan aðgang að upplýsingum og skemmtiefni, svo að allir landsmenn geti tekið fullan þátt í samfélaginu.

Við vonumst til að sjá raunverulegar úrbætur á þessu sviði og hlökkum til þess dags þegar allir, óháð staðsetningu eða fötlun, geta notið þess sem RÚV hefur upp á að bjóða. Við hjá Blindrafélaginu erum tilbúin til samstarfs.

Höfundur er formaður Blindrafélagsins




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×