Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar, en þar er jafnframt bent á að veðurviðvaranir séu í gildi í tveimur landshlutum, á Faxaflóa og í Breiðafirði.
Báðar viðvaranir tóku gildi skömmu fyrir átta í morgun og standa yfir til miðnættis í kvöld.
„Ár og lækir munu vaxa mikið og geta orðið erfiðar yfirferðar, en einnig aukast líkur á aurskriðum og grjóthruni. Fólk er því hvatt til að forðast varasöm vöð og brattar fjallshlíðar,“ segir um veðrið í þessum tveimur landshlutum.
Í textaspá veðurfræðings segir að útlit sé fyrir talsvert betra veðri fyrir austan. „Á austanverðu landinu er hins vegar útlit fyrir einmuna blíðu, fremur hægur vindur og léttskýjað og hiti gæti komist í 25 stig þar sem best lætur.”
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Víða bjartviðri, en dálítil væta vestast framan af degi og sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 12 til 22 stig, hlýjast inn til landsins.
Á þriðjudag:
Austlæg eða breytileg átt 5-13. Skýjað og sums staðar dálítil væta, en lengst af þurrt og bjart á Norðurlandi. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast í innsveitum norðanlands.
Á miðvikudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt. Skýjað að mestu og dálítil rigning eða súld í flestum landshlutum. Hiti 8 til 17 stig, mildast suðvestantil.
Á fimmtudag og föstudag:
Breytileg átt og dálítil væta með köflum. Hiti 9 til 17 stig, svalast við norðurströndina.