Fótbolti

Logi á­fram á skotskónum en Patrik hélt hreinu og lagði líka upp mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrik Gunnarsson lét til sína taka á báðum endum vallarins í dag.
Patrik Gunnarsson lét til sína taka á báðum endum vallarins í dag. Getty/ Jonathan Moscrop

Logi Tómasson skoraði fyrir Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni í dag og Patrik Gunnarsson átti flottan leik í marki Víking.

Patrik Gunnarsson og félagar í Viking unnu 2-0 sigur á Kristiansund í Íslendingaslag. Víking hefur verið á miklu skriði en þetta var fimmti sigurinn í síðustu sex leikjum en liðið hefur leikið alla þessa sex leiki án þess að tapa.

Patrik hélt ekki aðeins marki sínu hreinu heldur átti hann einnig stoðsendinguna í fyrra marki Víking á upphafsmínútu seinni hálfleiks. Markið skoraði framherjinn Sander Svendsen sem var einnig með seinna markið.

Patrik hefur haldið marki sínu hreinu í alls fimm leikjum á leiktíðinni þar af fjórum sinnum í síðustu átta deildarleikjum.

Hilmir Rafn Mikaelsson var í byrjunarliði Kristiansund en tekinn af velli á 63. mínútu.

Logi skoraði í öðrum leiknum í röð en því miður dugði það skammt. Strömsgodset tapaði 3-1 á útivelli á móti Lilleström.

Logi minnkaði muninn í 2-1 á 32. mínútu eftir að Lilleström komst í 2-0 á fyrstu sautján mínútum leiksins. Þetta var þriðja mark Loga á leiktíðinni en hann er einnig með þrjár stoðsendingar. Logi spilaði fyrstu 73 mínúturnar í dag.

Brynjar Ingi Bjarnason og Viðar Ari Jónsson voru í byrjunarliði HamKam sem vann 2-1 útisigur á Odd. Viðar var tekinn af velli í hálfleik í stöðunni 1-1.

Júlíus Magnússon lék allan leikinn á miðju Fredrikstad sem gerði markalaust jafntefli á heimavelli við Molde. Fredrikstad hefur ekki fagnað sigri í fimm síðustu leikjum en er samt í fimmta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×