Innlent

Leysingar hugsan­leg or­sök E.coli bakteríu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
E-coli baktería greindist í einu sýni úr neysluvatni á Siglufirði í gær. Tekin voru fleiri sýni í kjölfarið.
E-coli baktería greindist í einu sýni úr neysluvatni á Siglufirði í gær. Tekin voru fleiri sýni í kjölfarið. Vísir/Egill

E.coli baktería greindist í einu sýni Heilbrigðiseftirlitsins á neysluvatni sem tekið var í íbúðarhúsi á Siglufirði í gær. Í kjölfarið voru fjögur sýni tekin til viðbótar, og er niðurstaðna að vænta úr þeim á morgun. Heilbrigðisfulltrúi segir að erfitt sé að vera með vangaveltur þegar maður hefur ekki heildarmyndina fyrir framan sig. Íbúar eru hvattir til að sjóða vatn fyrir neyslu.

Sigurjón Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, segist vona að bakterían hafi fundist vegna mikilla leysinga í vatninu, en erfitt sé að vera með vangaveltur um orsakir og hugsanlegar lausnir áður en niðurstöður úr hinum sýnatökunum berast á morgun.

Niðurstöður á morgun

„Ég er nú að vonast til þess að þetta hafi mögulega einungis verið vegna þess að það hafi verið leysingar í vatninu og að geislabúnaðurinn sem hreinsar vatnið hafi ekki virkað sem skyldi. En við sjáum bara hvað niðurstöðurnar leiða í ljós í fyrramálið,“ segir Sigurjón.

Hugsanlega þurfi að bregðast við með betri síunarbúnaði og þess háttar, en það fari bara eftir því hverjar niðurstöðurnar verða úr sýnatökunum á morgun.

„Það var þarna eitt vatnsból sem var viðkvæmt og ekki með útfjólubláu ljósi á, en það hefur verið lagt af,“ segir Sigurjón.

Unnið verði að úrbótum ef þörf krefur

Málið verði skoðað í vikunni og unnið hratt og vel af Siglufjarðarbæ þegar niðurstöðurnar eru komnar.

Hann ítrekar að erfitt sé að vera með miklar vangaveltur út frá þessu eina sýni. Ákvörðun hafi verið tekin um að gefa út viðvörun í varúðarskyni. Sjálfsagt sé að hafa varann á sér, sérstaklega fyrir þá sem eru með skert ónæmiskerfi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×