Erlent

Biden leggur loka­hönd á til­lögur að breytingum á hæsta­rétti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur en það mun reynast þrautin þyngri að koma breytingunum í gegn.
Biden ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur en það mun reynast þrautin þyngri að koma breytingunum í gegn. Getty/Andrew Harnik

Joe Biden Bandaríkjaforseti er að leggja lokahönd á tillögur að breytingum á lögum um hæstarétt, sem munu meðal annars fela í takmörk á skipunartíma dómara.

Þá munu lögin einnig kveða á um framfylgjanlegar siðarreglur fyrir dómara.

Forsetinn er einnig sagður velta því fyrir sér að kalla eftir sérstökum viðauka við stjórnarskrána til að afnema örugglega friðhelgi forseta og annarra embættismanna.

Breytingarnar hafa meðal annars verið til skoðunar vegna fregna af siðferðisbrestum hæstaréttadómara og nýlegra dóma sem hafa farið gegn fyrri ákvörðunum réttarins.

Washington Post hefur undir höndum afrit af Zoom-fundi sem Biden átti með þingmönum á laugardag en þar sagðist hann hafa unnið að breytingunum með sérfræðingum á síðustu þremur mánuðum.

Talsmaður Hvíta hússins neitaði að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

Donald Trump hefur hins vegar þegar brugðist við fregnunum og sakað Demókrata um inngrip í forsetakosningarnar og árás á dómskerfið. 

„Við verðum að berjast fyrir réttlátum og sjálfstæðum dómstólum og vernda landið okkar,“ sagði Trump, sem hefur sjálfur farið mikinn í gagnrýni sinni á dómstóla síðustu misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×