Körfubolti

Rus­sell West­brook frjáls ferða sinna á ný

Siggeir Ævarsson skrifar
Russell Westbrook var 6. maður LA Clippers síðustu tvö tímabil
Russell Westbrook var 6. maður LA Clippers síðustu tvö tímabil vísir/Getty

Russell Westbrook er án félags, aðeins tveimur dögum eftir að LA Clippers skiptu honum til Utah Jazz. Tíðindin ættu þó ekki að koma neinum á óvart en Westbrook er sagður vera á leið til Denver Nuggets um leið og færi gefst.

Þann 18. júlí skiptu Clippers og Jazz á þeim Westbrook og Kris Dunn, en Dunn hefur verið í algjöru aukahlutverki hjá Jazz á liðnu tímabili. Í gær tilkynntu Jazz svo að Westbrook væri laus allra mála hjá liðinu en þetta er annað árið í röð sem Westbrook gengur tímabundið til liðs við Utah Jazz.

Það verður að teljast ólíklegt að Westbrook hafi tekið upp úr töskunum í Mormónaríkinu og mögulega tók hann þær ekki einu sinni með sér þangað. Áfangastaður hans er í Denver miðað við hvað helstu sérfræðingar deildarinnar eru að hvísla.

Westbrook, sem verður 36 ára í haust, hefur komið nokkuð víða við í deildinni eftir að hafa leikið fyrstu ellefu tímabilin sín með Oklahoma City Thunder en Nuggets verður sjötta liðið sem hann leikur fyrir ef af þessu verður.

Hjá Denver hittir hann fyrir einn af erkióvinum sínum, lukkudýr liðsins, en þeir tveir hafa eldað saman grátt silfur lengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×