Samkvæmt könnun Associated Press nýtur Harris stuðnings 2.668 kjörmanna, meðal annars kjörmanna Kaliforníu (318), Texas (237), Flórída (210), Pennsylvaníu (159) og New York (135).
Þá greina erlendir miðlar frá því að allir aðrir sem helst þóttu koma til greina sem forsetaefni Demókrata hafi nú lýst yfir stuðningi við Harris en þar má meðal annars nefna Gretchen Whitmer, ríkisstjóra Michigan, Andy Beshear, ríkisstjóra Kentucky, Wes Moore, ríkisstjóra Maryland, og Josh Shapiro, ríkisstjóra Pennsylvaníu.
Síðastnefndi þykir koma sterklega til greina sem varaforsetaefni.

Harris staðfesti í gærkvöldi að hún hefði tryggt sér stuðning nógu margra kjörmanna til að hljóta útnefninguna og þá greindi framboð hennar frá því að metupphæð, 81 milljón dala, hefði safnast á fyrsta degi hennar sem væntanlegt forsetaefni Demókrata.
Um var að ræða framlög frá samtals 880 þúsund aðilum.
Harris sagði í yfirlýsingu sinni í gærkvöldi að Bandaríkjamenn stæðu frammi fyrir skýru vali; Donald Trump vildi taka þjóðina aftur til tíma þar sem margir voru án fullra mannréttinda en hún horfði til framtíðar þar sem konur hefðu réttinn til að velja og þar sem fólk ætti möguleika á því að blómstra.
I’m in Wilmington, Delaware at our campaign headquarters to speak with staff. Tune in now. https://t.co/HYuVc0BVnK
— Kamala Harris (@KamalaHarris) July 22, 2024