Erlent

Réðst inn á hjúkrunar­heimili móður sinnar og drap sex

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Um tuttugu manns bjuggu á hjúkrunarheimilinu. Móðir árásarmannsins hafði búið þar í tíu ár þegar árásin var gerð. 
Um tuttugu manns bjuggu á hjúkrunarheimilinu. Móðir árásarmannsins hafði búið þar í tíu ár þegar árásin var gerð.  AP

Karlmaður var handtekinn í bænum Daruvar í norðausturhluta Króatíu í gær eftir að hafa farið inn á hjúkrunarheimili og skotið minnst sex til bana, þar á meðal móður sína. 

Guardian hefur þetta eftir yfirvöldum í Króatíu, þar sem segir að fimm hinna látnu hafi verið íbúar á hjúkrunarheimilinu og einn verið starfsmaður þess. 

Þá kemur fram að maðurinn hafi flúið vettvang þegar hann hafði hleypt skotunum af. Lögregla hafi handtekið hann á kaffihúsi í bænum og fundið í fórum hans skotvopn sem hann hefði ekki leyfi fyrir.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur maðurinn áður komist í kast við lögin, vegna heimilisofbeldis og fyrir að rjúfa almannafrið. Glæpir af þessu tagi séu sjaldgæfir í landinu og árásin ein sú mannskæðasta í sögu Króatíu. 

Króatískir miðlar hafa borið kennsl á árásarmanninn og segja hann fyrrverandi lögreglumann sem barðist í sjálfstæðisstríði Króatíu á tíunda áratugnum. Ekki liggur fyrir hver kveikjan að árásinni var. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×