Marokkómenn komu mikið á óvart í síðustu heimsmeistarakeppni með því að vinna bronsverðlaunin í Katar í desember 2022. Það er greinilega mikil uppsveifla í maróskum fótbolta því lið þeirra var nálægt því að vinna Argentínu í opnunarleik Ólympíuleikanna í dag. Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.
Soufiane Rahimi var hetja Marokkó því hann skoraði bæði mörk liðsins. Fyrst með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks og svo úr vítaspyrnu eftir sex mínútna leik í seinni hálfleik. Rahimi spilar með Al Ain í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Varamaðurinn Giuliano Simeone minnkaði muninn fyrir Argentínumenn á 68. mínútu og þeir voru síðan í stanslausri stórsókn á lokamínútunum. Jöfnunarmarkið kom þó ekki fyrr en á sextándu mínútu uppbótatímans en fimmtán mínútum hafði verið bætt við. Cristian Medina kom boltanum þá í netið eftir mikla stórskotahríð.
Spánn vann 2-1 sigur á Úsbekistan á sama tíma eftir að Úsbekar höfðu náð að jafna metin.
Marc Pubill skoraði fyrra mark Spánverja á 29. mínútu en sigurmarkið skoraði Sergio Gomez á 62. mínútu. Eldor Shomurodov hafði jafnað metin úr vítaspyrnu í uppbótatíma fyrri hálfleiks.
Spánverjar fengu víti á 59. mínútu en Sergio Gomez lét verja frá sér. Hann bætti fyrir það með því að skora sigurmarkið aðeins nokkrum mínútum síðar.