Kjartan Atli Kjartansson og Albert Brynjar Ingason verða á hliðarlínunni á Hlíðarenda á leik Vals og St.Mirren frá Skotlandi, sem verður sýndur á Stöð 2 Sport þar sem að eftir leiki kvöldsins verður farið yfir öll mörkin úr leikjunum fjórum, sem fara fram í Sambandsdeild Evrópu hér á landi í kvöld, og þeir leikir gerðir upp.

N1-völlurinn: Valur – St. Mirren | Stöð 2 Sport klukkan 18:45
Valsmenn tryggðu sér sæti í 2.umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar með samanlögðum 6-2 sigri í einvígi sínu gegn albanska liðinu Vllaznia á dögunum. Einvígi sem skapaði margar fyrirsagnir eftir ólæti albanskra stuðningsmanna á N1-vellinum í fyrri leik liðanna sem lauk með 2-2 jafntefli. Valsmenn þrýstu fætinum hins vegar fast niður á bensíngjöfina í seinni leiknum í Albaníu og hreinlega völtuðu yfir lið Vllaznia með 4-0 sigri fyrir viku síðan. Er það síðast leikur liðsins fyrir leik kvöldsins.

Skoska liðið St.Mirren er á yfirstandandi tímabili að taka þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn síðan tímabilið 1987/88. Liðið tryggði sér þátttökurétt í undankeppni Sambandsdeildarinnar með því að enda í 5.sæti skosku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Tímabilið í Skotlandi er ekki hafið. St.Mirren hefur því undirbúið sig fyrir leik kvöldsins með æfingarleikjum. Nú síðast gegn enska D-deildar liðinu Carlisle United, leik sem endaði með 2-2 jafntefli.
Víkingsvöllur: Víkingur R. – Egnatia | Stöð 2 Sport 5 klukkan 18:45
Á Víkingsvelli í Fossvoginum taka ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar Víkings Reykjavíkur á móti albanska liðinu KF Egnatia. Um er að ræða fyrsta leik Víkings í undankeppni Sambandsdeildarinnar á yfirstandandi tímabili. Liðið tók fyrst þátt í undankeppni Meistaradeildar Evrópu en laut þar í lægra haldi gegn írska liðinu Shamrock Rovers og færðist því niður í Sambandsdeildina.

Lið KF Egnatia er ríkjandi meistari í Albaníu og féll, líkt og Víkingar, úr fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Þar laut liðið í lægra haldi FK Borac Banja Luka frá Bosníu í einvígi sem réðst á vítaspyrnukeppni.
Sjá einnig: „Erum búnir að skoða þá vel og það er fullt af fínum spilurum þarna“
Samsungvöllur: Stjarnan – Paide | Stöð 2 Besta deildin klukkan 19:00
Lærisveinar Jökuls I. Elísabetarsonar lögðu norður-írska liðið Linfield að velli í fyrstu umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar með samanlögðum 4-3 sigri. Í 2.umferð undankeppninnar tekur við einvígi gegn eistneska liðinu Paide Linnameeskond. Stjarnan vann 2-0 sigur á Fylki hér heima í aðdraganda leiks kvöldsins.

Lið Paide er sem stendur í 4.sæti í eistnesku úrvalsdeildinni og sautján stigum frá toppliði Levadia Tallinn þegar að bæði lið hafa leikið tuttugu og einn leik. Levadia og Flora Tallinn eru jafnan talin sterkustu lið Eistlands og hafa þau jafnan ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum við íslensk lið. Paide lagði Bala Town frá Wales að velli í einvígi liðanna í fyrstu umferð. Einvígi sem réðst í framlengingu í seinni leik liðanna.
Sjá einnig: Stjörnumenn úttroðnir af upplýsingum um næsta mótherja: „Það voru tveir fundir í gær“
Kópavogsvöllur: Breiðablik – Drita | Stöð 2 Besta deildin 2 klukkan 19:15
Breiðablik reynir að endurtaka leikinn frá því á síðasta tímabili og tryggja sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Blikarnir lögðu norður-makedónska liðið Tikves að velli í fyrstu umferð undankeppninnar með samanlögðum 5-4 sigri í einvígi liðanna á dögunum og koma þeir fullir sjálfstrausts inn í leik kvöldsins eftir 4-2 öruggan sigur á KR í Bestu deildinni milli Evrópuverkefna.

Andstæðingur þeirra í 2.umferð er lið FC Drita frá Kósovó sem er að hefja vegferð sína í Evrópukeppni þetta árið með leiknum á Kópavogsvelli í kvöld. FC Drita endaði í 3.sæti efstu deildar Kósovó á síðasta tímabili, sem að lauk í júní síðastliðnum ytra.
Sjá einnig: „Hér stígum við fast á bensíngjöfina og höldum henni í botni í níutíu mínútur plús“
Við minnum svo á að eftir leiki íslensku liðanna í kvöld verður farið yfir öll mörkin úr leikjum þeirra og þeir leikir gerðir upp í beinni útsendingu frá N1-vellinum á Hlíðarenda á Stöð 2 Sport.