Fótbolti

„Ég veit núna hvað ég er að fara út í og hvað ég þarf að laga“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Amanda verður í eldlínunni með tvöföldum meisturum Twente á næsta tímabili.
Amanda verður í eldlínunni með tvöföldum meisturum Twente á næsta tímabili. twente

Amanda Andradóttir var í síðustu viku seld frá Íslandsmeisturum Vals til hollenska meistaraliðsins Twente. Hún segir erfitt að kveðja uppeldisfélagið, í annað sinn, en telur tímabært að taka stökkið og er spennt fyrir skemmtilegum sóknarbolta.

Síðan Amanda kom til Vals síðasta sumar hefur hún verið einn albesti leikmaður liðsins og skoraði 23 mörk í 33 leikjum.

„Það er alveg svolítið erfitt að fara frá Val en ég er bara mjög spennt að fara til Hollands, held að þetta sé fínn tímapunktur að fara núna. Þetta er toppklúbbur í Hollandi og deildin er betri en íslenska deildin, ég er að fara út í aðeins meira professional umhverfi.“

Á leið út í annað sinn

Þetta er í annað sinn Amanda fer frá uppeldisfélaginu Val og út í atvinnumennsku. Síðast var hún ekki nema 16 ára gömul, hún sneri svo aftur til Vals síðasta sumar eftir dvöl hjá félögum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

„Ég held að ég hafi lært ótrúlega mikið af því að fara út snemma og mun nýta reynsluna af því núna, hundrað prósent, þannig að ég veit núna hvað ég er að fara út í og hvað ég þarf að laga frá því ég var seinast úti.“

Mikill áhugi

Það var fjöldi liða á eftir Amöndu en fyrir valinu varð Twente, tvöfaldur meistari í heimalandinu Hollandi og sigursælasta lið í sögu efstu deildar.

„Mér leist ótrúlega vel á Twente, þetta er búið að vera toppklúbbur lengi í Hollandi, þau spila skemmtilegan sóknarbolta og ég held að ég passi vel þar inn.“

Innslagið allt úr Sportpakka gærkvöldsins má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×