Erlent

Reyna að fá Ísrael til að ráðast ekki á Beirút

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konur við minnisvarða um börnin sem létust í árásinni á Majdal Shams.
Konur við minnisvarða um börnin sem létust í árásinni á Majdal Shams. AP/Leo Correa

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi hafa gefið út ferðaviðvörun til ríkisborgara sinna og hvatt þá til að ferðast ekki til Líbanon og íhuga að yfirgefa landið ef þeir eru þar.

Fregnir hafa borist af því að sum flugfélög séu búin að fella niður allar ferðir til Beirút í bili.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru sögð vinna að því hörðum höndum að reyna að hindra allsherjar stríð milli Ísrael og Hezbollah, eftir að tólf börn létust í árás á bæ á Golan-hæðum á laugardag. Ísrael og Bandaríkin segja Hezbollah hafa staðið að árásinni en samtökin hafa neitað því.

Viðleitni Bandaríkjamanna ku beinast að því að fá Ísraelsmenn til að gera ekki árás á Beirút, höfuðborg Líbanon, úthverfin í suðurhluta borgarinnar þar sem Hezbollah hefur sterk ítök né mikilvæga innviði á borð við flugvelli og brýr.

Elias Bou Saab, varaforseti líbanska þingsins, sagði í samtali við Reuters að hann hefði átt í samskiptum við Bandaríkjamenn frá því um helgina og að Ísraelar gætu forðast stigmögnun átaka með því að hlífa höfuðborginni og nágrenni.

Utanríkisráðherrann Abdallah Bou Habib sagðist gera ráð fyrir árás af hálfu Ísrael en sagðist hafa verið fullvissaður um að stigmögnun Ísraela yrði takmörkuð og svar Hezbollah sömuleiðis.

John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, sagði viðvaranir um allsherjar átök ýktar og að enginn vildi stríð á svæðinu. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur hins vegar hótað hörðum viðbrögðum vegna árásarinnar um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×