Erlent

Grunar vinstri­öfga­menn um græsku

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn á brautarpalli á Norðurjárnbrautastöðinni í París á föstudag. Skemmdarverk voru unnin á háhraðalestarlínu að morgni opnunarhátíð Ólympíuleikanna.
Lögreglumenn á brautarpalli á Norðurjárnbrautastöðinni í París á föstudag. Skemmdarverk voru unnin á háhraðalestarlínu að morgni opnunarhátíð Ólympíuleikanna. AP/Mark Baker

Innanríkisráðherra Frakklands segir að grunur beinist að herskáum hópum vinstriöfgamanna vegna skemmdarverka sem voru unnin á hraðlestakerfi fyrir opnunarhátíð Ólympíuleikanna í París. Frekari skemmdarverk voru unnin í gær.

Ljósleiðarastrengir við teina hraðlestarlínunnar TGV sem tengir París til norðurs, vestur og austurs voru skemmdir þannig að aflýsa þurfti lestarferðum rétt fyrir upphaf Ólympíuleikanna á föstudag. 

Enn liggur ekki fyrir hver var að verki en Gérald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, ýjaði að því að vinstriöfgamenn ábyrgir, mögulega að áeggjan ónefndra aðila, í sjónvarpsviðtali í gær.

„Þetta eru hefðbundnar aðferðir öfgavinstrisins. Við verðum að gæta okkar, spurningin er hvort að þeim hafi verið stýrt eða hvort að þetta var í þeirra eigin þágu. Það er fólk sem getur nálgast þessa hreyfingu,“ sagði Darmanin í véfréttarstíl.

Um fimmtíu manns hefðu þegar verið handteknir sem hafi viljað vinna skemmdarverk eða standa fyrir róttækum mótmælum í París við upphaf leikanna.

Spellvirkjar létu aftur til skarar skríða á aðfararnótt mánudags en þá voru skemmdir unnar á fjarskiptakerfi á fimm stöðum. Þær ollu einhverjum truflunum á fjarskiptaþjónustu en höfðu ekki áhrif á Ólympíuleikana, að sögn AP-fréttastofunnar.

Lauren Nunez, lögreglustjórinn í París, gat ekki tjáð sig um hvort að tengsl væru á milli þeirra og skemmdanna sem voru unnar á lestarkerfinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Þetta var undirbúin aðgerð. Ef þetta var ekki fólk sem vinnur fyrir okkur þá var þetta fólk sem hafði upplýsingar,“ segir Romain Bonenfant, framkvæmdastjóri Sambands franskra fjarskiptafélaga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×