Sport

Unnu sér inn meira en hundrað milljónir með því að vinna Ólympíugull

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vivian Kong frá Hong Kong með gullverðlaunin sín sem hún vann í skylmingum. Hún fær yfir 106 milljónir í bónus frá ríkinu.
Vivian Kong frá Hong Kong með gullverðlaunin sín sem hún vann í skylmingum. Hún fær yfir 106 milljónir í bónus frá ríkinu. Getty/Sheng Jiapeng

Skylmingafólkið Vivian Kong og Cheung Ka Long hafa bæði skilað þjóð sinni gullverðlaunum á Ólympíuleikunum í París.

Þetta þýðir að Hong Kong er í hóp þeirra tíu þjóða sem hafa unnið flest gullverðlaun á leikunum til þessa.

Það fylgir því auðvitað mikill heiður að vinna Ólympíugull en þessi tvö tryggðu sér einnig veglegt verðlaunafé frá yfirvöldum í Hong Kong.

Ka Long Cheung með gullverðlaun sín ásamt Filippo Macchi frá Ítalíu og Nick Itkin frá Bandaríkjunum sem voru með honum á verðlaunapallinum.Getty/Carl Recine

Hong Kong borgar nefnilega gullverðlaunahöfum sínum 768 þúsund Bandaríkjadali fyrir gullið sem jafngildir meira en 106 milljónum íslenskra króna. Engin þjóð borgar íþróttafólki sínu hærri bónus fyrir gull á þessum Ólympíuleikum í París.

Cheung Ka Long var að vinna gullverðlaun á öðrum Ólympíuleikunum í röð en gullið sem hann vann í Tókýó 2021 var fyrsta gull Hong Kong í skylmingum og aðeins það annað frá upphafi í öllum greinum.

Með þessum tveimur gullverðlaunum hefur Hong Kong unnið fern gullverðlaun í sögu Ólympíuleikanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×