Erlent

Leið­togi Hez­bollah boðar „nýjan fasa“ eftir að farið var yfir „rauðar línur“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ávarpi Nasrallah var sjónvarpað í útför Shukr.
Ávarpi Nasrallah var sjónvarpað í útför Shukr. AP/Hussein Malla

Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah, flutti ávarp í gær þar sem hann sagði að skærur samtakanna og Ísrael væru í „nýjum fasa“. Óvinurinn mætti nú eiga von á „óumflýjanlegum viðbrögðum“ þar sem hann hefði farið yfir „rauðar línur“.

 Hefndaraðgerðir Hezbollah yrðu í takt við árás á heimili almenns borgara.

Ísraelsmenn gerðu á dögunum árás á aðsetur Fuad Shukr, háttsetts foringja Hezbollah, í Beirút. Þeir segja Shukr hafa staðið fyrir árás samtakanna síðustu helgi, þar sem tólf börn létust þar sem þau voru að leik í þorpi á Gólan-hæðum.

Útför Shukr fór fram í gær en hann er sagður hafa verið einn af helstu ráðgjöfum Nasrallah.

Ísraelar hafa einnig verið sakaðir um að hafa staðið að baki drápinu á Ismail Haniyeh, pólitískum leiðtoga Hamas, sem var ráðinn af dögum í Íran á miðvikudag. Ísraelar hafa ekki tjáð sig um málið.

Þrátt fyrir hótanir Nasrallah þykja orð hans benda til þess að Hezbollah hafi ekki áhuga á því að stigmagna átök enn frekar en áhyggjur hafa verið uppi um allsherjar stríð á svæðinu.

Hamas og Íran hafa einnig hótað hefndaraðgerðum í vikunni, vegna dauða Haniyeh.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×