Viðskipti innlent

Á von á nokkrum til­boðum í næstu viku

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Einar segir búnaðinn sem er til sölu sennilega ekki frá Wok On veitingastöðunum.
Einar segir búnaðinn sem er til sölu sennilega ekki frá Wok On veitingastöðunum. Vísir

Einar Hugi Bjarnason, skiptastjóri þrotabús WOKON ehf., segir fjölmarga hafa sýnt rekstrinum áhuga og lýst yfir vilja til að kaupa annað hvort alla staðina eða einstaka staðsetningar. Hann á von á nokkrum tilboðum í næstu viku, og stefnir að því að taka afstöðu til þeirra fyrir lok vikunnar.

Nokkra athygli vakti þegar sonur Davíðs Viðarssonar, áður Qang Le, auglýsti til sölu á Facebook allskonar búnað til veitingareksturs, sem leit út eins og hann gæti verið frá Wok On stöðunum.

Einhvers konar eldavél sem er til sölu.Vísir

Einar segir að við fyrstu skoðun virðist vera sem umrædd tæki séu ekki af neinum Wok On staðanna. „Það er auðvitað búið að taka mikið af ljósmyndum af öllum veitingastöðunum, og þetta eru ekki þau tæki sem þar voru notuð. Þetta gætu verið tæki sem eru geymd bara einhvers staðar úti í bæ,“ segir Einar.

Félagið WOKON ehf. var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 12. júní síðastliðinn, og var auglýst til sölu seinna í mánuðinum.

Tekur ákvörðun í næstu viku

Þá segir Einar að fjölmargir hafi sýnt rekstrinum áhuga, og ýmist lýst yfir vilja til að kaupa alla staðina eða einstaka staðsetningar eða veitingastaði.

„Ég á von á því að það muni berast nokkur tilboð í næstu viku, sem ég stefni að því að taka afstöðu til fyrir lok næstu viku,“ segir Einar.

Sumir ætli að gera tilboð í allt, og þau tilboð verði skoðuð fyrst. Ef það gangi ekki verði tilboð í einstaka staði skoðuð.


Tengdar fréttir

Wok On gjaldþrota

WOKON ehf., sem hélt utan um veitingastaðakeðjuna Wok On, hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Félagið er að fullu í eigu veitingamannsins Quang Lé, sem grunaður er um mansal og fleiri refsiverð brot. Annað félag í hans eigu, EA17 ehf., hefur sömuleiðis verið tekið til gjaldþrotaskipta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×