Innlent

Engin fíkni­efni reyndust um borð í bátnum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu í gær.
Frá aðgerðum lögreglu í gær. Sigfús Harðarson

Engin fíkniefni reyndust vera um borð í bát sem lögreglan á Suðurlandi var með til rannsóknar. Grunur um saknæmt athæfi í tengslum við fíkniefni kom upp við tollaeftirlit í gær, eftir að báturinn kom til Hafnar í Hornafirði frá Færeyjum.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að engin fíkniefni hafi verið í pakkningum sem fundust við tollskoðun á bátnum.

„Nokkur viðbúnaður var uppi vegna grunsemda um möguleg fíkniefni, en að málinu komu lögregluembættin á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu, auk tollgæslunnar. Pakkningarnar voru fluttar til Reykjavíkur til frekari skoðunar, sem leiddi í ljós að þær innihéldu ekki fíkniefni líkt og áður sagði. Tveir skipverjar voru yfirheyrðir vegna málsins, en þeir eru nú frjálsir ferða sinna,“ segir í tilkynningunni.

Gæslan og sérsveitin aðstoðuðu við aðgerðir

Lögreglan á Suðurlandi greindi í gær frá því að við tollaeftirlit lögreglu á Höfn í Hornafirði í gær hafi vaknað grunsemdir lögreglumanna um refsiverða háttsemi sem tengist fíkniefnum. Lögegla hafi fengið aðstoð frá tollgæslunni og miðlægri rannsóknardeild til að skoða málið frekar. 

Landhelgisgæslan og sérsveit ríkislögreglustjóra komu einnig að aðgerðum, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fólst aðkoma þeirra aðallega í að flytja fólk til Hafnar. 


Tengdar fréttir

Tveir yfir­heyrðir og enn ó­vissa um refsi­verða hátt­semi

Lögreglufulltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild segir enn til skoðunar hvort nokkuð refsivert hafi átt sér stað í tengslum við komu báts frá Færeyjum til Hafnar í Hornafirði í gær. Tveir voru yfirheyrðir vegna málsins í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×