Erlent

Stúlka og kona stungnar á Leicester torgi

Oddur Ævar Gunnarsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Mynd er úr safni.
Mynd er úr safni. EPA-EFE/NEIL HALL

Ellefu ára gömul stúlka og 34 ára gömul kona voru stungnar á Leicester torgi í miðborg London í morgun. Þær hafa verið færðar á sjúkrahús, ekki í lífshættu, og hefur árásarmaðurinn verið handtekinn.

Áverkar stúlkunnar eru ekki taldir lífshættulegir samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í London. Konan er sögð minna særð. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir öryggisverði verslunar að hann hafi stöðvað árásarmanninn og veitt stúlkunni fyrstu hjálpa ásamt samstarfsmönnum sínum.

Leicester-torg er einn af vinsælustu ferðamannastöðum London og jafnan margmenni þar. Fram kemur í tilkynningu lögreglu að ekki sé talið að fleiri hafi átt þátt í árásinni en karlmaðurinn sem nú sé í haldi. Ekki sé talið að árásin sé hryðjuverkatengd að svo stöddu.

Götulistamaður sem varð vitni að árásinni segir að stúlkan og konan hafi virst tengdar þar sem þær voru saman áður en maðurinn lét til skarar skríða. Konan hafi öskrað af öllum lífs og sálar kröftum.

Abdullah, 29 ára gamli öryggisvörðurinn sem kom stúlkunni til varnar, segist hafa stokkið á árásarmanninn þegar hann heyrði konuna öskra og náð að sparka hníf í burtu. Honum tókst að halda árásarmanninum niðri með hjálp tveggja annarra karlmanna sem dreif að.

„Ég hafði engan tíma, ég hugsaði bara ekki,“ segir hann um ákvörðunina um að blanda sér í málið.

Mikil spenna hefur verið í Bretlandi undanfarnar tvær vikur eftir ungur maður stakk þrjár ungar stúlkur til bana í bænum Southport. Til ítrekaðra óeirða hægriöfgamanna hefur komið þar sem fjöldi lögreglumanna hefur særst og eignaspjöll verið unnin. Ekkert liggur fyrir um hvort að árásin í London tengist þeim atburðum á nokkurn hátt.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×