Gjörningur þessi er samstarfsverkefni íslenskra og útlendra stofnana á borð við Veðurstofuna, Háskóla Íslands, Jöklarannsóknafélags Íslands og Náttúruminjasafns Íslands ásamt Rice-háskóla í Texas, Heimseftirlitsstofnun jökla og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) en Sameinuðu þjóðirnar hafa útnefnt árið 2025 alþjóðlegt ár varðveislu jökla.
Listi yfir horfna jökla gerður opinber
Samhliða viðburðinum verður að finna lista, sem sérfræðingar við Rice-háskóla gerðu yfir jökla sem hafa horfið frá aldamótunum síðustu eða eru við það að hverfa. Á síðunni verður hægt að skoða staðsetningu jöklana og lesa sér til um örlög þeirra eða framtíð. Hugmyndin er svo að bæta við jöklum jafnóðum og þeir hverfa, að sögn Guðfinnu Aðalgeirsdóttur, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Viðburðurinn hefst klukkan eitt á laugardaginn í húsakynnum Marvöðu á Fiskislóð í Reykjavík. Þar munu Guðfinna og Hrafnhildur Hannesdóttir, fagstjóri jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, vera með erindi.
Þá verður gengin skrúðganga að jöklagrafreitinum á túninu sunnan við bílastæðin í Snoppu við Gróttu. Þar verður búið að koma fyrir fimmtán köldum legsteinum sem listamaðurinn Ottó Magnússon býr til. Hann hefur skorið listaverk úr klaka í um tuttugu ár.
Söngur og ræður til heiðurs íslíkum
Þar fer svo fram eins konar vígsluathöfn þar sem lesin verða eftirmæli jöklanna fimmtán. Kór mun einnig syngja undir athöfnina.
„Jöklagrafreiturinn er listinnsetning og helgisiðarými til að vekja athygli á jöklunum sem eru að hverfa í heiminum. Meðal ísköldu legsteinanna munum við halda söng og ræður, til heiðurs þessum íslíkum sem hverfa fljótlega - frá Ameríku til Himalajafjalla og frá Aotearoa/Nýja Sjálandi til Skandinavíu,“ segir í viðburðarlýsingunni.
„Komdu með okkur í samtal, kyrrðarstund og blásum lífsanda í jöklana sem enn er hægt að bjarga. Klæðaburður sem heiðrar bæði líf og dauða.“