Innlent

Fjórir berjast um em­bætti um­boðs­manns Al­þingis

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Umsækjendurnir eru frá vinstri: Reimar Pétursson, Hafsteinn Þór Hauksson, Anna Tryggvadóttir og Kristín Benediktsdóttir.
Umsækjendurnir eru frá vinstri: Reimar Pétursson, Hafsteinn Þór Hauksson, Anna Tryggvadóttir og Kristín Benediktsdóttir. samsett

Fjórir einstaklingar gefa kost á sér í embætti umboðsmanns Alþingis. Það eru þau Anna Tryggvadóttir skrifstofustjóri, Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Kristín Benediktsdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Reimar Pétursson lögmaður.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis.

Forsætisnefnd Alþingis auglýsti þann þriðja júlí síðastliðinn að hún myndi fyrir lok septembermánaðar gera tillögu til Alþingis um einstakling til að gegna embætti umboðsmanns Alþingis og var áhugasömum boðið að gefa kost á sér eða koma á framfæri ábendingum um einstaklinga í embætti.

Undirnefnd forsætisnefndar hefur gengið frá skipan ráðgjafarnefndar sem verður undirnefndinni til aðstoðar við að gera tillögu til forsætisnefndar um einstakling sem nefndin tilnefnir við kosningu í embættið. Umboðsmaður er kjörinn á þingfundi.

Eftirtaldir sérfræðingar skipa ráðgjafarnefndina: Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Ásmundur Helgason landsréttardómari og Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir mannrauðsráðgjafi. Starfsmaður nefndarinnar er Halldóra Viðarsdóttir, ritari forseta Alþingis.

Fráfarandi umboðsmaður Alþingis er Skúli Magnússon en hann hefur gegnt embættinu frá árinu 2021. Hann lætur af störfum eftir að hafa verið skipaður dómari við Hæstarétt. Hann tekur við af Ingveldi Einarsdóttur, varaforseta réttarins, sem lætur af störfum sökum aldurs í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×