Þegar níu mínútur voru til hálfleiks óskaði markvörður Tindastóls, Monica Wilhelm, eftir aðstoð sjúkraþjálfara. Í sjónvarpsútsendingu sést ljósmyndarinn kalla eitthvað í áttina að Wilhelm og dómaranum, hinni dönsku Frederikke Sökjær.

Eftir að Wilhelm hafði fengið aðhlynningu og sjúkraþjálfarinn Margrét Ársælsdóttir gekk af velli sást ljósmyndarinn skipta sér af henni og fylgdi henni þegar hún var á leið í varamannaskýli Tindastóls.
Sökjær var bent á þetta og hljóp að ljósmyndaranum og Margréti. Hún bað hana um að fara í varamannaskýlið en vísaði ljósmyndaranum í burtu. Hann þráaðist eitthvað við en fór að lokum út af vallarsvæðinu og leikurinn gat því hafist að nýju.
Atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Í umfjöllun Fótbolta.net, sem fjallaði fyrst um málið, var Sökjær hrósað fyrir að vísa ljósmyndaranum af velli.
Í samtali við Vísi í gær sagði Margrét að ljósmyndarinn hefði verið ósáttur við að leikurinn hafi verið stöðvaður. Hún svaraði honum með því að hún væri bara að sinna sínu starfi. Að sögn Margrétar baðst þjálfari Víkings, John Andrews, afsökunar á uppákomunni. Engir eftirmálar verða þó af henni af hálfu Margrétar og Tindastóls.
Samkvæmt upplýsingum frá Víkingi var rætt við ljósmyndarann á staðnum. Og eftir samtal við framkvæmdastjóra Tindastóls, Lee Ann McGinnis, telst málið afgreitt í fullri sátt að því er fram kemur í tilkynningu frá Víkingi.
Á leik Víkings og Tindastóls í gær kom upp atvik þar sem ákveðin orðaskipti áttu sér stað milli aðila við störf á vellinum.
— Víkingur (@vikingurfc) August 16, 2024
Eftir gott samtal við Lee Ann McGinnis framkvæmdastjóra Tindastóls telst málið vera afgreitt í fullri sátt á milli félaganna.
Víkingur vann leikinn, 5-1, en þetta var fjórði sigur liðsins í síðustu fimm leikjum. Víkingar eru í 4. sæti deildarinnar en Stólarnir í því áttunda.